146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

æskulýðsmál og samfélagsþátttaka ungs fólks á Íslandi.

[12:45]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Viktori Orra Valgarðssyni fyrir að óska eftir sérstökum umræðum um þennan mikilvæga málaflokk. Mér finnst þessi málaflokkur skipta mjög miklu máli vegna þess að það er þannig að margir byrja á því að starfa í félagsmálum, ég gerði það á sínum tíma, og ég held að félagsstörf í öllu skólastarfi, frá því að krakkar hefja skólagöngu, skipti miklu máli. Ég held að leiðin til að auka lýðræðislega umræðu, lýðræðislega þátttöku, byrji strax í leikskóla, skóla. Við eigum að hvetja til þess og vera í mjög miklu og góðu samstarfi við sveitarstjórnarstigið.

Mig langar að vekja athygli á því að mótuð var stefna í þessum flokki af æskulýðsráði árið 2014 og gildir hún frá 2014–2018. Það finnst mér hafa verið svolítið spennandi vinna og mig langar, með leyfi forseta, að fá að vitna í þau markmið sem æskulýðsráð setti á sínum tíma og fela m.a. í sér í fyrsta lagi að skipulag æskulýðsmála sé samræmt á landsvísu og stuðli þannig að samstarfi allra aðila sem koma að æskulýðsstarfi. Í öðru lagi að þátttaka barna og ungmenna í æskulýðsstarfi sé aukin og starfið taki mið af þörfum hvers einstaklings. Í þriðja lagi að börn og ungmenni hafi bein áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir um æskulýðsstarf.

Þarna held ég að við séum svolítið komin að kjarna málsins. Það að auka allt svona starf snemma mun hafa mjög jákvæð áhrif þegar við förum inn í framtíðina. Þarna finnst mér að við eigum að auka samstarfið við sveitarstjórnirnar. Í kjölfar þess að þessi stefna var mótuð af æskulýðsráði myndi ég kannski vilja beina því til ráðherrans að það væri mjög spennandi (Forseti hringir.) ef gerð yrði úttekt og árangursmetið hvernig framvinda þessarar stefnu hefur verið.