146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[15:13]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar sem við hv. þm. Brynjar Níelsson erum að ræða prinsipp langar mig að ítreka það sem hv. þm. Logi Einarsson sagði í þingsal áðan, en það eru sjónarmiðin sem hafa komið fram um það, í raun þetta gamla prinsipp, að sérlög gangi framar almennum lögum. Þetta prinsipp hefur verið notað síendurtekið til að viðhalda kynjahalla í dómskerfinu; með því að halda því fram að jafnréttislög eigi ekki við þegar kemur að dómstólalögum. Vill þá hv. þingmaður meina, eins og hann heldur fram, að þetta sé bara eitthvert rugl, að dómstólalögin séu ekki sérlög, að það þurfi ekki að taka sérstaklega fram að jafnréttislög gildi hér eins og sérstaklega er tekið fram í lögum sem eiga eftir að taka gildi um dómstóla? Ef við erum að tala um spurningu um prinsipp þá er það eitt prinsipp að tryggja að hin almennu lög, jafnréttislög, gangi líka framar sérlögum í þessum efnum, dómstólalögum.