146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

orkuskipti.

146. mál
[15:50]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er mikill aðdáandi stuttra og hnitmiðaðra svara. Það einfaldar oft málin. Fyrst langar mig í seinna andsvari mínu að koma inn á það að hæstv. ráðherra leggur til að þessu máli verði vísað til atvinnuveganefndar. Sjálfur tel ég að þetta sé mál sem eigi allt eins heima á borði umhverfis- og samgöngunefndar og velti því upp, án þess að ég ætli að gera stórkostlegan ágreining um það eða veður yfir því eins og stundum hefur verið gert hér í þingsal, hvort hægt væri að vísa þessu til nefndanna beggja eða í það minnsta búa svo um hnútana að haft verði mikið og gott samstarf þar á milli. Það held ég að myndi hjálpa málinu áfram. Þetta er svo víðfeðmt, eins og hæstv. ráðherra kom sjálfur inn á, og snertir svo margar stefnur og mál sem eru á borði hv. umhverfis- og samgöngunefndar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að lokum í andsvari mínu út í hagræna hvata sem koma fram á bls. 2 í greinargerðinni. Þar segir í fyrsta efnislið, með leyfi forseta:

„Gjaldtaka í samgöngum verði endurskoðuð þannig að hún tryggi ríkissjóði nægar skatttekjur til að standa undir uppbyggingu og viðhaldi samgöngumannvirkja.“

Hvað er átt við? Er hér verið að boða frekari vegtolla eins og hæstv. samgöngumálaráðherra hefur að ég hygg látið hefja þegar vinnu við að skoða eða í það minnsta boðað það? Hvernig tengist þetta, að tryggja nægar skatttekjur til að standa undir uppbyggingu og viðhaldi samgöngumannvirkja, hagrænum hvötum í orkuskiptum?