146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

orkuskipti.

146. mál
[15:54]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir að flytja þessa tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti. Ég hugsa að þannig sé farið með okkur öll hér inni að okkur finnist það vera fögur framtíðarsýn að breyta úr dísli og bensíni í rafmagn, t.d. í bílaflotanum, svo ekki sé talað um skipaflotann, sem er stærra mál og flóknara.

En þetta góða mál er líka háð því að við getum flutt rafmagnið og átt nóg rafmagn til að taka við þeim orkuskiptum sem við reiknum með að þurfi í landinu, á allan bílaflotann. Það eru líka miklu stærri mál sem snúa að höfnum landsins þar sem bátarnir liggja við bryggju og vantar rafmagn. Það háttar svo til víða um landið, sérstaklega á Norðurlandi, Norðausturlandi og Austurlandi að þangað er ekki hægt að flytja meira rafmagn til þess að tengja við hafnir, við fiskimjölsverksmiðjur sem keyrðar eru áfram á olíu. Núna eru þær allar að bræða loðnu og flestar þeirra keyrðar með olíu því að ekki er nógu mikill burður í flutningnum til að flytja rafmagn til þeirra. Þessi fallega sýn, sem ég held að við öll hér inni getum verið sammála um að þetta sé, byggir á því að við séum tilbúin til að búa til það rafmagn sem þarf til þess að mæta þeim hugsjónum og hugmyndum sem fram koma í þessari þingsályktunartillögu. Og ef við viljum framleiða rafmagnið þurfum við að geta flutt það. En við erum alltaf að lenda í því aftur og aftur að í samfélagi okkar vilja allir hafa nóg af rafmagni en næstum ekki nokkur vill að það sé framleitt, hvað þá að það sé flutt. Það hefur alls konar áhrif á umhverfi okkar. Ef við ætlum að rafkeyra alla bíla landsins þarf að setja upp stöðvar hringinn í kringum landið. Þá þarf að flytja það aukna rafmagn sem þarf til þess með burðugra flutningskerfi. Það er auðvitað önnur umræða en hún fylgir einhvern veginn algerlega hinni hugmyndinni.

Þess vegna er gott sem kom fram hjá hæstv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé að auðvitað varðar þetta mál líka umhverfis- og samgöngunefnd. Ég tek heils hugar undir það. Ég held að við þurfum alltaf í svona stórum málum að ná breiðri samstöðu. Ég held að það sé alveg sjálfsagt að atvinnuveganefnd leiti umsagnar umhverfis- og samgöngunefndar í þessu máli og að við vinnum þetta sem best saman, þingmenn allra nefnda og allra flokka.

Mig langar líka að minnast á örfáa punkta sem ég hef meiri innsýn í en aðrir. Minnst er á að almenningssamgöngur geti komið hérna inn. Ég heyrði fréttir af því um daginn að Reykjavíkurborg hefði verið að kaupa níu rafmagnsstrætisvagna. Það er framför. Algerlega. Við erum á réttri leið þar. Eins og staðan er held ég að við munum setja rafmagnsvagna á allar styttri leiðir. Minnst er á það í þessu frumvarpi, t.d. leiðina milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur. Það er mjög þarft og gott mál og auðvitað styðjum við það heils hugar.

Síðan er talað um orkusparnað í hafi. Þá er komið inn á fiskiskipaflotann og veiðar og veiðarfæri. Það er orðið miklu flóknara og stærra mál. Við sem þekkjum aðeins til í því vitum að á undanförnum árum hefur það gerst að bæði búnaður veiðarfæra, tóg, ofurtóg og annað slíkt, er orðinn miklu léttari og sterkari en vírinn er nokkru sinni. En á móti kemur að skipin eru orðin langtum stærri og veiðarfærin langtum meiri um sig. Á stærstu flottrollum er opnun á veiðitrolli á við marga fótboltavelli. Það eru risaverkfæri. Þegar menn draga þau eftir kolmunna þarf mikið vélarafl. Það þarf gríðarlegt afl til að draga þessi miklu troll og þessa risahlera sem halda þeim opnum. Á sama tíma og menn auka afköst veiðiskipanna þyngjast veiðarfærin og þótt vélarnar séu orðnar hæfari og betri í því að nýta orkuna kallar það allt á mikla orku. En að sjálfsögðu þurfum við að skoða hvernig við getum haldið áfram að minnka orkunotkun á hvert kíló af veiddum fiski sem við komum að landi. Ég held að við getum öll verið sammála um það. Hér er verið að tala um leiðir til þess að fara þá leið. Þótt hún sé flóknari en varðandi bílana megum við ekki gefast upp. Við verðum að halda áfram og sjá hvort við náum ekki einhverjum árangri í því. En ég held að við eigum ekki að tala um einhver boð og bönn eða segja til um hvaða veiðarfæri eigi að nota. Lína og net og slík veiðarfæri kalla á miklu minni orku til sjós. Það vitum við allir. Í vondum veðrum eyðist líka meiri orka á sjó við að draga troll eða net. Þannig er það nú. Náttúran spilar líka inn í þetta með okkur.

En ég þakka fyrir þetta frumvarp. Það kom að vísu fram á síðasta þingi, ég man ekki hvort það var bara kynnt eða lagt fram, en nú er það komið hér fram og til umræðu, samfélagi og umhverfi til heilla, eins og ráðherrann sagði svo ágætlega. Ég held að við séum akkúrat öll þar. Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni í atvinnuveganefnd og mun sjá til þess að við höfum samráð um verkefnið við umhverfis- og samgöngunefnd.