146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Georgíu.

177. mál
[17:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir orð hennar og er ánægður að heyra að hún fagni þessum samningi og vil upplýsa það úr því að við ræðum það að hv. þingmaður er ekki sá eini í þessum þingsal sem farið hefur til Georgíu. Ég fór að vísu rétt eftir opnunina, eftir að austantjaldsríkin voru frelsuð undan oki kommúnismans. Þá var það nú þannig, af því að hv. þingmaður nefndi orkumálin, að rafmagnið fór af í Tíblisi að meðaltali á 20, 30 mínútna fresti. Það var áhugavert að vera á þeim stað þar sem ástandið var þannig. Það er nú gaman að ræða það.

Varðandi spurningu hv. þingmanns þá snýr þetta annars vegar að því hvernig við munum beita okkur fyrir því að kynna vörur okkar og þjónustu í landi eins og Georgíu og hvernig við kynnum það sem Georgíumenn hafa upp á að bjóða, en ég er ekki búinn að vera lengi í ráðuneytinu. Ég hef hins vegar ýmsar hugmyndir sem tengjast því sem hv. þingmaður nefndi. Annars vegar held ég að við getum hugsanlega gert betur varðandi kynningu á því sem við höfum upp á að bjóða og auðvitað í Georgíu og öðrum löndum. Ég lít sérstaklega til þróunarríkjanna. Við þurfum að vera mjög einbeitt í því hvernig við hjálpum þróunarríkjunum. Ég veit ekki hvernig Georgíumenn standa hvað það varðar, við erum í það minnsta ekki með neina þróunaraðstoð þar og ég verð nú að viðurkenna að ég er ekki undirbúinn undir tölur varðandi þjóðarframleiðsluna í Georgíu, en við styðjum þetta ríki sannarlega ekki með beinum hætti.

En ef við ætlum að hjálpa þeim löndum sem ég nefndi, það á auðvitað við öll lönd, þá þurfum við líka að hjálpa þeim að kynna vörur sínar á mörkuðum eins og hjá okkur. Það snýr ekki að einstökum löndum, en eins og hv. þingmaður nefnir réttilega er þetta eitt af því sem við verðum að gera ef við ætlum (Forseti hringir.) að hjálpa þeim löndum á þeim stað sem við viljum sjá þau á.