146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

eigandastefna ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

[16:05]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Rétt eins og komið hefur hér fram eru þessi drög að eigandastefnu ríkisins á bönkunum ósköp þunn þótt þau séu falleg að mörgu leyti og svo á bara að selja. Það er svona stutta útgáfan af þessari eigandastefnu.

Í þessari sérstöku umræðu, sem ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur sérstaklega fyrir að hefja, svífa gamlir draugar yfir vötnum. Við heyrum orð eins og kjölfestufjárfestir, kröfur og hæfni, gagnsætt ferli, erlendir fjárfestar, einkavæðing bankanna. Ég fæ bara hroll. Hvenær ætlum við að læra af reynslunni? Borgunarhneykslið sýndi í raun fram á það að við höfum ekki lært af reynslunni, sýndi fram á að við erum ekki tilbúin til að fara í þá einkavæðingu bankanna sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vill fara út í. Það eina sem það sýndi fram á var sama gamla íslenska spillingin, eða vanhæfnin, ég veit ekki alveg hvort er verra.

Á að einkavæða eða á ekki að einkavæða? Í reynd er það eina sem þarf að gera að byggja traust. Á meðan aðgerðir eins og t.d. salan á Borgun eiga sér stað er staðan einfaldlega þannig að enn þá er of víða pottur brotinn í íslensku samfélagi og því umhverfi sem bankastarfsemi á sér stað í. Þótt margt hafi verið gert, mikið til út af EES-innleiðingum, svo við eignum nú okkur ekki allan heiðurinn af öllu því góða sem hefur verið gert hér eftir hrun, þá þurfum við að taka þetta mjög alvarlega. Við þurfum að fara að byggja traust. Ef við ætlum að fara út í einkavæðingu þarf að einkavæða mun hægar, það þarf að taka mark á því sem gerðist í sögunni (Forseti hringir.) vegna þess að við fengum að kynnast því árið 2008 hvað það þýðir að missa heilt bankakerfi úr höndum einkaaðila.