146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

lækkun virðisaukaskatts á gleraugum og linsum.

105. mál
[16:26]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það veldur mér töluvert miklum vonbrigðum að hlusta á hæstv. ráðherra kerfisbreytingaflokksins fara hér með þvílíka þulu um flækjustigið í því að einfalda virðisaukaskatt á nauðsynjum. Ég hef verið með linsur síðan ég var unglingur, var með rosalega stór gleraugu þegar ég var krakki og var lögð í einelti, að sjálfsögðu, út af því. En kostnaðurinn við gleraugu, t.d. hjá þeim sem eiga ekkert rosalega mikla peninga, er mikill, sérstaklega hjá börnum. Því langar mig að hvetja hæstv. ráðherra til að leggja til að færa þessi nauðsynlegu hjálpartæki niður í lægra þrepið og forða okkur frá flækjustiginu sem birtist svo ískyggilega í ræðu hæstv. ráðherra þegar hann var að útskýra hverjir hefðu rétt en gleymdi alveg að fara með hverjir ættu (Forseti hringir.) ekki rétt á þessum stuðningi þegar þeir mest þurfa á því að halda.