146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

byggingarkostnaður og endurskoðun laga.

74. mál
[16:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég beini hér tiltölulega einfaldri spurningu til umhverfis- og auðlindaráðherra um byggingarkostnað og endurskoðun laga. Ég held að við höfum öll orðið vör við að mikið er rætt þessa dagana um húsnæðisvandann. Eftirspurn er langt umfram framboð. Sérfræðingar eru sammála um að þann vanda megi fyrst og fremst rekja til þess að mjög lítið hefur verið byggt frá því eftir hrun. Þegar maður fer í tölur Hagstofunnar um fullgerðar íbúðir, sem ná alveg aftur til 1970, kemur fram að það virðast aldrei hafa verið færri en um 1.200 íbúðir sem voru fullgerðar á ári frá 1970 til hrunsársins. Eftir hrun hafa milli 565 til 1.149 íbúðir verið fullgerðar, á árunum 2009–2015.

Það hefur verið rætt hér í þessum ræðustól að það veki nokkra athygli að þrátt fyrir þessa stöðu sé ekkert fjallað um húsnæðismál í stjórnarsáttmála. Ekkert er að finna í þingmálaskrá umhverfis- og auðlindaráðherra sem varðar byggingu íbúðarhúsnæðis, og það þrátt fyrir að flest lög sem varða byggingu húsnæðis og skipulag mannvirkja heyri undir ráðherrann. Ég hef saknað þess að ráðherra hefur ekki tjáð sig neitt að ráði um byggingu íbúðarhúsnæðis.

Fyrir stuttu kom fréttatilkynning frá félags- og jafnréttismálaráðherra á vef velferðarráðuneytisins um að nú væri búið að skipa starfshóp fjögurra ráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, umhverfisráðherra og samgönguráðherra, sem er ætlað að skila tillögum í húsnæðismálum innan fárra vikna. Í fréttatilkynningunni kemur fram að honum er meðal annars ætlað að huga að umbótum í skipulagslöggjöf til að einfalda þéttingu byggðar og athuga núgildandi byggingarreglugerð með einföldun gagnvart byggingu minni og hagkvæmari íbúða í huga.

Spurning mín er svohljóðandi, virðulegi forseti:

Hyggst ráðherra endurskoða skipulagslög og lög um mannvirki með það í huga að lækka byggingarkostnað íbúðarhúsnæðis?

Mig langar að vita hvort segja megi að verið sé að svara þessu í áðurnefndri fréttatilkynningu. Ég spyr hvort ráðherrann hafi í hyggju að vinna áfram að þeim frumvörpum sem var verið að vinna að í ráðuneyti hennar fyrir ríkisstjórnarskiptin, um breytingar á lögum um mannvirki og breytingu á skipulagslögum, um einföldun stjórnsýslu byggingarmála með lækkun byggingarkostnaðar vegna íbúðarhúsnæðis að leiðarljósi. Ég spyr hvort þetta sé allt sem starfshópnum er ætlað að huga að eða hvort líka sé verið að skoða hvernig almennt megi hraða ferlinu, hvernig megi til dæmis auðvelda einstaklingum að byggja, hvort það sé áfram skoðun ráðuneytisins að það eigi (Forseti hringir.) að halda sig við 55 m² íbúðir varðandi algilda hönnun eða hvort menn séu tilbúnir að skoða stærri viðmið. Ég spyr líka (Forseti hringir.) hvernig við getum almennt bætt yfirsýnina og gert áætlanir þannig að tryggt sé að þeir ráðherrar sem sitja hér saman geti betur unnið að framboði húsnæðis.