146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

endurskoðun samgönguáætlunar.

92. mál
[18:40]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Samkvæmt lögum um samgönguáætlun skal ráðherra leggja fram tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun þar sem mörkuð skal stefna og markmið fyrir allar greinar samgangna næstu tólf árin á fjögurra ára fresti. Gildandi stefnumótun nú er fyrir árin 2011–2022, en tillaga að nýrri samgönguáætlun 2015–2026 var lögð fram til kynningar á Alþingi sl. haust. Fjögurra ára áætlun skal vera hluti af og innan ramma tólf ára samgönguáætlunar. Hana skal endurskoða á tveggja ára fresti. Sú áætlun sem samþykkt var á Alþingi í október sl., nánar tiltekið 12. október, nær til áranna 2015–2018.

Eins og fram kemur í spurningunni vantar verulega á að fjárheimildir séu í samræmi við það sem kemur fram í samgönguáætlun. Hins vegar er þetta ekki ný staða og jafnan hefur framkvæmdum á áætlun verið forgangsraðað miðað við meginmarkmið samgönguáætlunar og hversu brýn verkefnin eru að mati Vegagerðarinnar og ráðuneytisins. Einnig er tekið mið af þeim leiðbeiningum sem fjárlaganefnd hefur sett fram í nefndaráliti sínu. Þannig var þetta gert núna og í allri þessari forgangsröðun er ekki síst horft til mikilvægis öryggismála, umferðaröryggis.

Hér er spurt hvort leitað verði samþykkis Alþingis fyrir breytingum á gildandi samgönguáætlun hvað varðar stjórnvaldsheimildir til að velja þau verkefni sem fá framgang á árinu 2017 og hver ekki. Það verður eingöngu ráðist í verkefni sem Alþingi hefur veitt samþykki sitt fyrir í gildandi samgönguáætlun en takmarkast auðvitað við það fé sem veitt hefur verið á fjárlögum. Eins og ég sagði áðan höfum við verið í þessari vinnu í ráðuneytinu á undanförnum dögum. Við horfum ekki síst til öryggismála þar.

Af því að Dettifossvegur var nefndur hér sérstaklega þá eru fyrirhugaðar framkvæmdir á Dettifossvegi fyrir í kringum 350 milljónir, ef ég man rétt, á þessu ári.

Það eru víða brýn verkefni sem bíða og auðvitað er almenn óánægja um allt land með það að þær væntingar sem gefnar voru í samgönguáætlun í október sl. skuli ekki hafa verið uppfylltar með fjárveitingum við fjárlagagerðina. En ég minni á það að fjárlagafrumvarpið var afgreitt í víðtækri sátt allra flokka. Það er ekki hægt að skrifa það á reikning fjármálaráðherra, held ég. Þetta var unnið á víðtækari grunni eins og við þekkjum öll.

Hvort við hyggjumst leggja til að aukið verði við fjárheimildir Vegagerðarinnar í fjáraukalögum þá voru fjáraukalög fyrir árið 2016 lögð fram á grundvelli fjárreiðulaga, nr. 88/1997. Frá og með árinu 2017 verða fjáraukalög afgreidd á grundvelli nýrra laga nr. 123/2015, um opinber fjármál. Þar er kveðið á um heimild ráðherra að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins enda sé ekki hægt að bregðast við þeim með öðrum úrræðum. Með því er átt við heimild ráðuneyta til að millifæra fjárheimildir innan málaflokks innan fjárlagaárs til að bregðast við því óvænta. Markmiðið með þessu nýja verklagi er að draga úr umfangi fjáraukalaga og með því að færa ábyrgðina til ráðuneyta og með hvatningu til að þau beiti árangursríkri fjármálastjórn á sínum málefnasviðum og málaflokkum.

Að framansögðu má vera ljóst að verkefni á samgönguáætlun falla ekki undir skilyrði sem sett eru um auknar fjárheimildir. Miðað við það get ég ekki í mínum störfum reiknað með því að í fjáraukalögum verði sérstaklega horft til þess. Ég held að það þurfi aðra nálgun á þau mál ef það ætti að koma til aukinna fjárframlaga til framkvæmda í samgöngukerfinu, sem vissulega er mikil þörf á á þessu ári.