146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að tala um áhorfendapallana í þinghúsinu. Ég kom reglulega á þessa palla sem óbreyttur borgari og ég get sagt að það er varla verri staður á landinu til að fylgjast með ræðum og þingstörfum Alþingis en pallar þess. Það kom stundum fyrir að maður lagði leið sína niður í bæ til að fylgjast með einhverju máli sem maður hafði áhuga á en svo kemur maður upp á palla, situr þarna nánast allslaus og símalaus, veit ekki hvaða mál kemur næst eða hve margir eiga eftir að tala, gefst upp, fer heim og horfir á þetta í sjónvarpinu.

Ég held að fyrst við höfum ákveðið að leyfa okkur sjálfum að vera með raftæki í salnum til að geta flett upp frumvörpum, eða hvað það er sem við gerum við þessi tæki, gætum við íhugað það að þeir borgarar sem hingað koma til að fylgjast með einhverjum málum gætu einnig tekið snjalltæki sín með sér, svo lengi svo tækin yrðu hljóð og fólk myndi ekki taka myndir eða þess háttar.

Ef virðing Alþingis getur þolað að þingmenn fikti í símunum sínum getur hún líka þolað að gestir geri það.


Efnisorð er vísa í ræðuna