146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Sú skýrsla sem Ríkisendurskoðun hefur sent frá sér og varðar kennaraskort ætti ekki að koma okkar á óvart. Þeim hefur fækkað sem sótt hafa í kennaranámið alveg frá árinu 2009 og ljóst er að ekki tekst að útskrifa nægjanlega marga til að viðhalda menntuðum kennurum í starfi. Þar spilar margt inn í og er augljóst að við þurfum að bregðast við nú þegar. Það er ekki ásættanlegt að við eigum um 10.000 menntaða kennara en einungis helmingur þeirra kjósi að starfa sem kennarar þrátt fyrir að stærstur hluti þeirra hafi farið í gegnum þriggja ára nám. Af tæplega 3.000 leikskólakennurum sem fengið hafa leyfisbréf frá árinu 1999 eru um 1.700 að störfum.

Ljóst er að lenging námsins er ekki eina orsökin heldur einnig það sem ég ætla að fara yfir á eftir ásamt mörgum öðrum þáttum sem við verðum að rannsaka. Við þurfum að laða fólk að með einhverjum hætti til náms og starfa, t.d. með ívilnun í gegnum námslánakerfið, með styrkjum eins og á Norðurlöndunum, en ekki síður þurfum við að huga áfram að kjörum og aðbúnaði kennara. Mikið álag hefur einkennt kennarastarfið á öllum stigum og stuðningskerfið í kringum börn og ungmenni er ekki sem skyldi. Það er mikilvægt að þar standi bæði ríki og sveitarfélög betur saman til hagsbóta fyrir samfélagið allt.

Við vitum líka að gott efnahagsástand hefur áhrif því að kennaramenntað fólk er eftirsótt og ef maður fær betur borgað á hinum almenna vinnumarkaði og álagið er mun minna en í kennslustofunni og í skólunum er ekkert skrýtið við það að kennarar velji það frekar en kennsluna, jafnvel þó að þeir brenni fyrir starfinu.

Ég hef óskað eftir sérstakri umræðu við menntamálaráðherra um þessi mál, þennan fyrirliggjandi kennaraskort, því að eins og fram kom áðan liggur fyrir að ekki tekst að manna störf kennara til framtíðar ef fram heldur sem horfir. Ég vona svo sannarlega að hæstv. ráðherra verði með einhver svör á takteinunum um hvað hann hyggst gera.


Efnisorð er vísa í ræðuna