146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:29]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það eru nokkur atriði hérna. Lýðræðislegt mál, að það nái fram að ganga. Málið hefur farið til nefnda, eins og ég sagði áðan, og fengið mikla umfjöllun. Það hefur ekki komist lengra. Hvers vegna? Vegna þess að á endanum hefur þetta ekki verið mál sem flokkarnir hafa lagt áherslu á, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn þá fyrst og fremst. Ég velti því líka fyrir mér, þar sem búið er að leggja málið fyrir mjög ítrekað, af hverju ríkisstjórnin leggur þetta ekki fram. Af hverju leggur forsætisráðherra þetta mál ekki fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar? Af hverju þarf þetta að vera þingmannamál ár eftir ár? Ef þetta er raunverulega mál sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ná í gegn með miklum þunga þá nær hann því væntanlega í gegn og Viðreisn styður það væntanlega. Ég geri ráð fyrir því. Það færi betur á því. Það nyti þá væntanlega forgangs við afgreiðslu, t.d. við þinglok, og annarra slíkra þátta. Ég hvet hv. þingmann til að huga að því.

Ég er talsmaður barna og var það auðvitað á síðasta kjörtímabili. Ég er ekki að heyra um þessi mál í fyrsta sinn. Ég hef átt töluverð samskipti við unga fólkið í kringum það. Þetta var ekki eini fundurinn og ég er ekki að vitna sérstaklega í hann, þann sem við hv. þingmaður sátum síðast.

Það er heldur ekki hægt að vitna í rannsókn eða könnun eða eitthvað slíkt þar sem einungis er talað um léttvín og bjór þegar hér er undirliggjandi frumvarp sem er allt annað. Við skulum þá bara spyrja þetta unga fólk hvort það vilji þetta svona. Er það sammála því? Hversu stór hluti ungs fólks á áfengiskaupaaldri er sammála því þegar við veitum því þær upplýsingar sem við höfum? Við skulum athuga það. Þá skal ég vera tilbúin til að svara því hvort ég sé að hunsa ungt fólk og viðhorf þess og skoðanir, því að ég tel mig ekki vera að gera það.