146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:45]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir andsvarið. Jú, ég tek undir það að það er undarlega að farið þegar fjallað er um áfengi eins og hverja aðra neysluvöru. Við vitum það öll sem eitthvað höfum skoðað málið, og ég held að við séum flest meðvituð um það, að áfengi er ekki eins og hver önnur neysluvara eins og ég kom reyndar inn á í ræðu minni áðan.

Það er líka vitað að áfengi er eina eiturefnið sem hefur skaðleg áhrif á fóstur í móðurkviði á meðgöngu sé þess neytt. Ekkert magn þess er öruggt fyrir fóstrið. Það gengur ekki að við tölum um þetta sem hverja aðra neysluvöru, þótt varan sé vissulega lögleg er hún ekki á þeim stað að við getum leyft okkur það. Ég tek undir það.