146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:21]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er ósammála hv. þingmanni um að þótt það fyrirfinnist áfengisauglýsingar í einhverju formi í dag sé leiðin að gefast upp og heimila þær allar. Hv. þingmaður svaraði því heldur ekki til hvort mætti þá ekki auglýsa tóbak með sömu rökum. (ÓBK: Á að skrifa fyrir erlenda fjölmiðla?) Ég og hv. þingmaður deilum ekki sama skilningi á því hvað það er að vera meðflutningsmaður á frumvarpi. Ég er sammála hv. þingmanni að við eigum að taka upplýsta umræðu en vilji hv. þingmanns og annarra flutningsmanna kemur fram í greinargerðinni. Það er það sem verið er að leggja til.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í greinargerðina og um forvarnir. Það var reynt að auka fé í ýmis mál í fjárlagavinnu í desember. Því miður náðist ekki samstaða um það. En í greinargerðinni segir að neysla muni aukast og þess vegna þurfi að auka (Forseti hringir.) fé til forvarnaverkefna en aðeins í tvö ár. Hvað gerist að þessum tveimur árum liðnum? Vill hv. formaður velferðarnefndar segja mér hvað það er sem breytist í neysluumhverfinu þannig að ekki verði þörf á því að tveimur árum liðnum?