146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:52]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að byrja með verð ég að segja að þegar hv. þingmaður horfir hér á mann og segir að flokkur manns sé lítill annar flokkur þá finnst mér það ekki endilega gott innlegg í umræðuna. Maður er vanur ýmsu úr stjórnmálaumræðu, en mér finnst slík umræða eiga heima í kommentakerfum en ekki í þessum stól. Svo að ég snúi mér að efnislegri umræðu þá á hv. þingmaður ekki erfitt með að búa til þá tengingu að þar sem verslunin er líklega fylgjandi efni frumvarpsins þá gangi þeir sem leggja það fram erinda hennar. Allir vínframleiðendur landsins, þeir sem eiga samtals 80% af hilluplássi í verslunum ÁTVR, eru fylgjandi núverandi fyrirkomulagi. Þá velti ég því fyrir mér hvort hún geti getið sér til um ástæðurnar þar að baki, hvort þeir aðilar hafi lýðheilsusjónarmið í huga þegar þeir berjast gegn þeim breytingum sem hér er verið að leggja til.