146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:12]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta ágæta andsvar þó að ég sé ekki endilega mjög hrifinn af þeirri röksemdafærslu sem þar er. Skoðanir í áfengismálum liggja á ákveðnu rófi. Ég hef ákveðið róf af mögulegum útfærslum á áfengisfrumvarpi sem ég gæti vel fellt mig við. Þær liggja allar frá því að áfengi sé selt í sérstökum verslunum, þá ekki með annarri vöru, og til þess að hafa fyrirkomulagið eins og það er sunnar í álfunni, eins og ég lýsti hér í ræðu minni, eins og Ítalíu þar sem áfengi er selt tiltölulega frjálslega í flestum verslunum. Það má alltaf toga til og spyrja af hverju maður sé ekki fylgjandi því að fara meira í þessa átt eða ögn meira í hina. Ég er alveg til í að skoða ýmsar útfærslur á því.

Prinsippið í þessu máli er það, og ég held að það sé ákveðinn eðlismunur þar á, að mér finnst eðlismunur á því hvort við bönnum fólki alfarið að stunda ákveðna atvinnu eða hvort við segjum: Já, við ætlum að heimila þér að stunda þessa atvinnu en hér eru skilyrðin sem við setjum. Ég held að það sé frekar auðvelt að sjá að það er ákveðinn munur þar á.

Ef ég ætti að ákveða einn og sér myndi ég líklegast ekki sjá neitt því til fyrirstöðu að fólk gæti keypt áfengi í pylsusjoppu. Mér finnst það ekki vera tiltökumál að leyfa það eða banna. Það má alltaf toga sig til til og frá og spyrja af hverju það sé inni í frumvarpi með þessum hætti. Eins og ég segi, ég lýsi því yfir að ég gæti sætt mig við frumvarp sem væri héðan frá og alla leið hingað. Þetta frumvarp uppfyllir þau skilyrði, en færslur í eina aðra átt myndu ekki breyta afstöðu minni.