146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:21]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta. Það er áhugavert að hann talar um reynslu annarra þjóða. Ég vildi að flutningsmennirnir nýttu sér hana líka þegar kemur að öðrum rannsóknum um lýðheilsu og annað slíkt. Hér er vitnað til stórborga en við erum að tala um dreifðar byggðir með 500–800 íbúum, það er það sem ég er m.a. að vitna í. Svo eru fullyrðingar hérna sem þingmennirnir geta ekki staðfest eins og að samþykkt frumvarpsins muni hafa góð áhrif á landsbyggðinni, það er fullyrt. Ég fullyrði hins vegar að þingmennirnir geti ekki staðfest þetta.

Mig langar í seinna andsvarinu að spyrja þingmanninn hvort hann hafi kynnt sér rannsóknir sem nemendur í Háskólanum á Bifröst unnu árið 2014 um samfélagsleg áhrif frjálsrar áfengissölu á Íslandi. Niðurstöður þeirra harmónera við sambærilegar niðurstöður úr rannsókn sem sænska lýðheilsustofnunin birti árið 2008. Þar voru rannsökuð áhrif þess fyrir sænskt samfélag ef ríkiseinokun á áfengissölu yrði afnumin og sala áfengis leyfð í matvöruverslunum. (Forseti hringir.) Sama er að segja um meistararitgerð Ara Matthíassonar frá 2010. Mig langar að spyrja þingmanninn, (Forseti hringir.) af því að hann vitnar í áhrif á aðgengi, (Forseti hringir.) hvort hann viti um áhrifin á lýðheilsu í þeim löndum sem hann var að tala um.