146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:27]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvað á að kalla það þegar verslanir ÁTVR auglýsa: Bíddu þangað til þú ert 20 ára. Er það ekki einhvers konar hvatning til neyslu? Menn tala ekki um tóbak með þessum hætti. Menn auglýsa ekki tóbak með þeim hætti: Bíddu þangað til þú ert orðinn 18 ára, menn gera það ekki. Menn gefa það til kynna að það sé allt í lagi að neyta áfengis eftir að maður er tvítugur. Þeir sem vita eitthvað um auglýsingar vita það að þegar maður sér vörumerkið myndar maður hugartengslin við það. Það hefur þá þau áhrif að mann langar frekar að kaupa það tiltekna vörumerki. Hvaða áhrif hefur það í tilfelli vínbúðar? Hvaða vörur selur vínbúð? Jú, hún selur vín, þannig að það myndar þau hugartengsl og eykur þar með neyslu.

Hér er minnst á hömlur. Vissulega er ákveðið form á hömlum að hafa ríkiseinokun á sölu áfengis. Ég hef sagt það að ég er alveg tilbúinn að skoða ýmsar hömlur á sölu áfengis. Ef menn skoða frumvarpið við hlið núverandi löggjafar setur það víða meiri hömlur á sölu áfengis (RBB: Með ísbúðum.) en þær sem fyrir eru. Þingmaðurinn getur skoðað lagagreinina við hlið frumvarpsins og séð að hugsanlega hafa verið settar meiri hömlur. Hugsanlega þarf að setja enn þá meiri hömlur ef menn vilja skoða það. En það eru settar meiri hömlur vegna þess að við höfum einhvern veginn lagt allt okkar traust á að þetta sé í höndum ríkisins og þar með þurfi ekki lengur að hafa áhyggjur af því að varan sé seld við hliðina á annarri neysluvöru, sem oft er tilfellið úti á landi.

Ég hef ekki mikinn tíma til að svara spurningunni um álag á heilbrigðiskerfið, en ég ítreka það sem ég segi: Ég er ekki andvígur öllum skrefum sem draga eiga úr neyslu áfengis, en mér finnst það skref að setja söluna einungis í hendur ríkisins vera eitthvað sem ekki er í mínum verkfærakassa, eins og ég segi.