146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:55]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að spyrja þingmanninn hvaðan hún hafi þá tölu að spáð sé að áfengisneysla muni aukast um 48% í Washington-ríki. Ég spyr af einskærri forvitni, af því að þær tölur sem ég hef séð hafa verið í kringum 13%, en talan 48 kemur úr samanteknu miðgildi af mörgum rannsóknum þar sem þessi mál hafa verið skoðuð. Ég kalla eftir því og ef þingmaðurinn hefur það ekki á hreinu hér getur hún eflaust komið því til mín með einhverjum öðrum hætti.

Hér var minnst á Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina. Mér fannst reyndar athyglisverði hlutinn í ræðu hv. þingmanns snúa að einhverju sem tengdist ekki efni þessa máls beint heldur vitnaði hún þar í skoðanir Davids Nutts um fíkniefnamál. Það verður að hafa í huga að því miður hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ekki alltaf haft fullkomlega rétt fyrir sér um allt. Við verðum t.d. að viðurkenna að afleiðing þeirrar eitrunarstefnu sem rekin hefur verið um allan heim undanfarna áratugi er að einhverju leyti afleiðing þeirrar skoðunar sem birtist hjá stofnuninni og síðan á öllum öðrum stöðum. Ég er ekki að segja að þar með sé allt rangt sem þessi stofnun mun segja fyrr og síðar, en hins vegar bendi ég á að stundum geta menn dottið í einhvern ákveðinn farveg, síðan hoppa allir aðrir á lestina og niðurstaðan verður ekki endilega eftirsóknarverð.

Mig langar þá að spyrja bara: Hve langt er hv. þingmaður tilbúin að elta David Nutt í þessum hugleiðingum? Hvaða ríki myndi hún vilja líkjast í þessum efnum? Myndi hún vilja líkjast Washington-ríki eða t.d. Portúgal?