146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins hvað varðar afglæpavæðingu fíkniefna þá er ég í þeim hópi að ég hef ekki myndað mér skoðun á því hvaða landi nákvæmlega ég vil líkjast eða hvaða útfærslu. Ég er ekki sérfræðingur í því en auðvitað myndi ég gjarnan vilja setja mig inn í það. En ég er sammála þeirri meginstefnu að þangað eigum við að stefna og hef tekið þátt í að skrifa undir áskoranir þess efnis. Því get ég svarað hv. þingmanni sem bíður í ofvæni eftir þessum svörum

Aðeins um frelsið. Það skiptir líka máli í þeim málum að við hlustum eftir fagfólki. Mér finnst það umhugsunarefni þegar við ræðum frelsið að við hlustum á þá sem rannsakað hafa það hugtak hvað mest, ekki satt? Þess vegna held ég að það skipti máli að við veltum fyrir okkur hvað það þýði í raun fyrir einstaklingsfrelsið að þurfa að fara í sérstaka verslun til að kaupa áfengi og geta ekki keypt það í matvælaverslun. Þau rök hefur Róbert H. Haraldsson heimspekingur lagt fram. Ég hef heyrt ýmsa hv. þingmenn vera ósammála honum (Forseti hringir.) en ég hef ekki séð miklar deilur um það enn þá á vettvangi fræðanna. Ég held að það væri gott að fylgjast með þeirri umræðu.