146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:07]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skerði ekki frelsi annarra með því að neyta áfengis. Ég skerði kannski frelsi annarra með því að beita ofbeldi, kynferðislegu ofbeldi eða öðru slíku, en mér þykir það afskaplega hæpin hugmynd að gefa í skyn að það sé einhvers konar óhjákvæmileg afleiðing áfengisneyslu. Þetta fer bara einfaldlega ekki svona saman. (Gripið fram í: Það …) — Nei, þú sagðir það ekki, en mér finnst mikilvægt að gera þann greinarmun að það er sjálfstæð ákvörðun, hvort sem hún er tekin undir áhrifum áfengis eða ekki, að það er ekki bein afleiðing. Það er mikill munur á beinum og óbeinum afleiðingum í þessu samhengi.

Ég hef því miður ekki tíma til að fara yfir allt sem við vorum að tala um. En varðandi bílbelti: Jú, það eru rök fyrir því að takmarka frelsi sem kemur inn á sameiginleg kerfi, notkun á sameiginlegum kerfum, og það sem hefur bein áhrif á aðra. Við setjum ákveðin skilyrði fyrir því að nota sameiginlegt vegakerfi og slíkt. Mér finnst það vera annars eðlis en að setja fólki skilyrði með áfengisneyslu sína, sem í sjálfu sér er einkamál þess. Það er það sem ég er að reyna að gera greinarmun á. Og jú, ég tel að verslunarfrelsi sé ákveðinn hluti af einstaklingsfrelsi en vegna þess einmitt að það (Forseti hringir.) er hluti af sameiginlegu kerfi sem við tökum þátt í sé eðlilegt að setja ákveðnar hömlur á það frekar en að banna það endilega. En neyslan er ekki hluti af því, snýst bara um einstaklingsfrelsið.