146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:09]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla áður en ég hef mál mitt að setja mér tvær viðmiðunarreglur varðandi það hvað ég ætla ekki að tala um. Ég ætla að reyna að tala ekki út frá sjálfum mér, eins og mér finnst of oft bregða við í þessari umræðu, af því að mér finnst ekki koma málinu við hvernig mér líður þegar ég geng fram hjá vínbúðinni á Eiðistorgi, eða hvernig mér hefur liðið þegar ég bý í löndum þar sem aðgengi að áfengi er með öðrum hætti en á Íslandi. Við semjum ekki lög út frá okkar persónulegu upplifun, heldur út frá, vona ég, mengi upplifana sem nær yfir aðeins stærri hóp og helst þjóðina alla.

Hitt atriðið, sem ég ætla ekki að tala út frá, er það að hér séum við að ræða lítið ómerkilegt mál sem verðskuldi ekki að vera í jafn miklum forgangi og það er. Jú, vissulega er þetta lítið mál, en það kristallast ákveðin hugmyndafræðileg átök í því sem maður sér strax í inngangi að greinargerðinni. Þar sér maður oft meginmarkmið og tilgang frumvarpa þegar maður les slíkan texta. Í þessu frumvarpi segir, með leyfi forseta:

„… það er ekki hlutverk ríkisins að sinna smásölu …“

Hér stendur hnífurinn í kúnni. Við erum einfaldlega ósammála um það, bæði í samfélaginu og hér inni í þessum sal, hvert er nákvæmlega hlutverk hins opinbera. Sumir hér inni eru hlynntir því að einkavæða hluta af ríkisrekstrinum, sérstaklega þann sem skilar ábata, og svo virðist vera með áfengissölu. Við önnur erum ekki þeirrar skoðunar. Þó að málið sé í sjálfu sér lítið er þetta djúpstæð átakalína í stjórnmálum og í samfélaginu. Mér finnst bara fínt að málið fái það pláss í umræðunni sem það hefur fengið.

Þá ætla ég að venda kvæði mínu í kross og tala aðeins út frá sjálfum mér, út frá því hvað þetta er lítið og ómerkilegt mál af því að mér þykir dálítið vænt um málið. Ég myndi segja að málið sé svona það sem markar upphaf þátttöku minnar í stjórnmálum. Við munum það mörg sem fylgdumst með atburðunum veturinn 2008–2009 þegar hrunið varð og ólgan í samfélaginu náði hámarki, þá var þetta mál sett á dagskrá. Ég veit ekki hvort nokkurn tímann, hvorki úr þessum ræðustól né annars staðar, hv. fyrrverandi þingmanni, Sigurði Kára Kristjánssyni, hafi verið þakkaður sinn þáttur í að hrinda af stað búsáhaldabyltingunni. Ég vil alla vega þakka honum kærlega fyrir að hafa fengið okkur til að berja á potta og pönnur á Austurvelli. Í framhaldinu hóf ég afskipti af stjórnmálum í Vinstri grænum og endaði síðan hér þar sem eitt af því fyrsta sem mætir mér er þetta ágæta mál.

Búið er að fara ágætlega yfir ýmis efnisatriði málsins. Ég ætla ekki endilega að lengja umræðuna mikið með þeim, enda munum við væntanlega leggjast ítarlega yfir þau efnisatriði í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem ég á sæti. En mig langar að tala aðeins um það hvernig hefur verið talað um vísindi og rannsóknir úr þessum ræðustól um þessi mál.

Hér hafa menn, stuðningsmenn frumvarpsins sérstaklega, lagt ríka áherslu á það í máli sínu að við eigum að bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum í málinu. Ég er sammála því eins og ég sagði. Það er djúpstæður ágreiningur á milli okkar sem kallar oft á heita umræðu en umræðu sem verður að geta átt sér stað án þess að við grípum til gífuryrða. Þess vegna þykir mér alltaf dálítið kúnstugt þegar sömu þingmenn og tala um að við skulum bera virðingu fyrir skoðunum hvers annars kalla andstæðar skoðanir hræðsluáróður og eru þar m.a. að tala niður elsta embætti íslenska ríkisins, landlækni, ótal heilbrigðisstarfsmenn, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og guð má vita hvað annað. Svo ég vitni í hv. flutningsmann málsins, hv. þm. Teit Einarsson, úr flutningsræðu sinni, þá sagði hann, með leyfi forseta:

„En það er líka oft varasamt að fella alla mannlega hegðun undir einfalda tölfræðilega samantekt …“

Svo hélt hann áfram og dró upp þetta hlægilega dæmi af því að ef við horfðum bara á tölfræðina um það hvað við værum, mannkynið, með mörg eistu þá værum við með eitt eista að meðaltali. Svo hélt hann áfram, með leyfi forseta:

„Þegar upp er staðið munu tölfræðilegar bollaleggingar og karp um gildi slíkra upplýsinga ekki ráða úrslitum í þessu máli …“

Eiga upplýsingar ekki, frú forseti, að ráða úrslitum í stórum og mikilvægum málum hér á Alþingi? Nú veit ég ekki hvað kennt er nákvæmlega í lagadeild Háskóla Íslands sem gefur hv. þm. Teiti Einarssyni þá empírísku innsýn í fræðin að geta afskrifað alla tölfræði varðandi lýðheilsu og áfengisneyslu bara svona á einu bretti né heldur hvað háttvirtir ýmsir aðrir flutningsmenn málsins, sem hafa talað um þetta sem hræðsluáróður, hafa fyrir sér. Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða vandlega. Bæði held ég að við þurfum að skoða þær rannsóknir sem hefur verið vísað til og hvort þar séu mögulega glufur sem þurfi að fylla í en svo þurfum við líka kannski að líta aðeins á umræðuna um vísindin sem — sko, nú ætla ég að vera með hræðsluáróður, mér finnst þetta minna dálítið á það hvernig bandarískir repúblikanar tala um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Þegar menn tala niður vísindin og tala um empírískar rannsóknir eins og það sé skammaryrði, þá held ég að við ættum aðeins að hugsa okkar gang.

Svo er annað atriði sem mig langar að víkja að, það er áfengisstefna stjórnvalda sem við virðumst flest vera sammála um að sé svona hinn anginn af þessu, þ.e. verslunarfrelsið sem fólk vill innleiða með því að einkavæða ÁTVR. En þá vaknar spurningin hvernig það hefur áhrif á framkvæmd mótunar og framfylgd áfengisstefnu stjórnvalda, af því að það að ríkið hafi vínbúðirnar í sínum höndum hefur bara heilmikið að segja um hvernig sú stefna er framkvæmd. Eins og hv. þm. Pawel Bartoszek minntist á er ekki í núverandi lögum um áfengi tiltekinn neinn hámarkstími á afgreiðslu áfengis vegna þess að stjórnvöld hafa beina innkomu alls staðar þar sem áfengi er selt. Það þarf ekki að setja lög endilega um allt sem ríkið er sjálft að gera og gerir í samræmi við eigin stefnumörkun.

Ég spyr mig hvort sú tiltölulega einfalda breyting sem er lögð til á lögum um verslun með áfengi dugi til, hvort ekki þurfi víðtækari lagabreytingar til að takast á við þær áskoranir sem munu myndast í framfylgd áfengisstefnunnar. Þá hefur verið nefnt hver kostnaðaraukningin verður. Hv. flutningsmaður, svo ég víki aftur að honum, Teitur Einarsson sagði að hann sæi t.d. fyrir sér að lögregla færi að hafa eftirlit með matvöruverslunum. Hvernig gengi að framfylgja reglum um t.d. lágmarksaldur til kaupa áfengis? Hvaða mannskap þyrfti að bæta í lögreglu, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum svo við víkjum enn og aftur að þeim? Hversu margar bjórlöggur þyrfti að ráða til að uppfylla markmið hv. flutningsmanna um að ekki verði aukið aðgengi ungmenna að áfengi? Svo ég nefni dæmi.

Nefnd hafa verið hér áhrif á heilbrigðismál, áhrif á löggæslu vegna breytinga á neyslumynstri. Þetta er allt saman sem getur orðið til kostnaðarauka. Síðan er í frumvarpinu talað um að ekki verði samdráttur í tekjum ríkisins, ekki nokkur teljandi samdráttur, vegna þess að mikið af þeim tekjum sem ríkið hefur af áfengissölu í dag sé hvort eð er bundið í gjöldum sem áfram muni innheimtast, áfengisgjaldi og virðisaukaskatti og hverju öðru sem er lagt á vöruna.

Við erum nú þegar farin að sjá hagsmunaaðila gera sig gildandi í umræðunni. Það birtist fyrir helgi þegar umræðan hófst. Þá birtist í Morgunblaðinu viðtal við fulltrúa Vífilfells, sem heitir víst Coca Cola Iceland í dag, þar sem hann tiltók að fyrirtækið væri með umboð fyrir fjölda tegunda sem menn hefðu hug á að koma á markað. Þar var jafnframt vikið orðum að því að í framhaldinu þyrfti að fara að skoða það að lækka þetta blessaða áfengisgjald því að það væri hamlandi starfsemi þeirra sem væru að flytja inn þessa vöru.

Ég velti því fyrir mér hvað við þurfum að bíða lengi þar til hér verður röðin til fjárlaganefndar minnst einu sinni á ári til að lækka áfengisgjöld, hvort hagnaðarvonin sem óneitanlega er hjá þeim einkaaðilum sem myndu hafa söluna á sínum höndum myndi m.a. birtast í því að þeir færu að reyna að auka sína hagnaðarvon með því að lækka opinberar álögur, en taka þar með stærri hlut vöruverðsins til sín.

Þetta er eins og ég segi ekki sama smámál og margir vilja vera láta. Ég held jafnvel að þetta sé stærra mál en flutningsmenn vilja vera láta af því að það er meira í þessu en bara hrein og klár einkavæðing á ÁTVR. Þetta er eðlisbreyting á því hvernig hið opinbera stýrir neyslu á áfengi, sem er nokkuð sem ég er, heyrist mér á innleggi hv. þm. Viktors Orra Valgarðssonar, ósammála þingmanninum um. Ég tel að hið opinbera eigi að stýra neyslu á þessari vöru, alveg eins og ég tel að við eigum að fylgja ráðleggingum sérfræðinga í heilbrigðisvísindum og lýðheilsufræðum þegar þeir segja að við eigum að beita sykurskatti til að draga úr ofneyslu á sykruðum matvælum, alveg eins og ég tel að hið opinbera eigi að gera sem mest af því að styðja við heilbrigða lífshætti. Þannig að við minnkum ekki bara álagið á heilbrigðiskerfið, heldur drögum jafnframt úr þjáningum einstaklinga í samfélaginu. Því að það er jú frelsi líka að vera frjáls undan vansæld, sjúkdómum og þjáningum.