146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[20:17]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni upphefðina, að hann skuli verja meginþorra ræðu sinnar eftir tveggja daga umræður um þetta mál í að víkja að því sem ég ræddi í ræðu minni varðandi afstöðu þingmannsins til vísindakenninga. Ég er ekki viss um að þetta sé endilega besti staðurinn til að vera á, að vera í þetta mikilli vörn gagnvart eigin framsöguræðu. En í þeirri ræðu gerði þingmaðurinn að umtalsefni að þau varnaðarorð sem bærust okkur frá sérfræðingum, fagmönnum á sviði lýðheilsufræða og heilbrigðisvísinda, uppeldisfræða og allra hinna sérfræðinganna, væru ekki vísindalega sannaðar kenningar. Mikið vildi ég að sama nálarauga væri í gildi þegar flutningsmenn þessa frumvarps færa rök fyrir máli sínu, því að þar eru ekki vísindalega sannaðar kenningar heldur.

Hv. þingmaður sagði í flutningsræðu sinni, sem mér finnst dálítið stangast á við það sem hann segir nú, að vísindi séu grundvöllur samfélags okkar, hér fyrir helgi, með leyfi forseta:

„Þegar upp er staðið munu tölfræðilegar bollaleggingar og karp um gildi slíkra upplýsinga ekki ráða úrslitum í þessu máli …“

Þetta held ég að sé til marks um að þingmaðurinn láti sér í léttu rúmi liggja hvort vísindin styðji hugmynd flutningsmannanna eða ekki, hér eigi að reka málið í hörðum pólitískum andstæðupólum. Þá skiptir kannski litlu máli þótt allir sem best vita í fræðunum leggist eindregið gegn (Forseti hringir.) frumvarpinu. Hér á pólitíkin að ráða.