146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[20:27]
Horfa

Flm. (Teitur Björn Einarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Fjöldi útsölustaða ÁTVR? Ég stóð í þeirri meiningu að þeir væru 50. Komi annað fram í greinargerðinni getur það verið lítilvæg innsláttarvilla eða eitthvað slíkt og sjálfsagt fyrir allsherjar- og menntamálanefnd að fá botn í það hve margir útsölustaðir eru í landinu. Hárrétt. Algjörlega.

Fólksfjölgun? Já, ég ætla að leyfa mér að segja að ég geri mér grein fyrir að í landinu hafi fólki fjölgað. Ég átta mig ekki alveg á hvað það kemur málinu við nema hv. þingmaður vilji nota fólksfjölda til að deila í fjölda útsölustaða áfengis. Fái hann einhverja niðurstöðu í því kann hún að vera sú sem hún er. [Hlátur í þingsal.] En við getum líka áttað okkur á því að Íslendingar eru svo og svo margir, 340.000 tæplega. Hingað koma líka útlendingar; 2 milljónir tæplega á þessu ári. Það má spyrja hv. þingmann á móti: Ef við sjáum tölur um að áfengisneysla á Íslandi sé að aukast, hve stór er þáttur útlendinga í því? Þetta geta allt verið mjög áhugaverðar pælingar.