146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

kjararáð.

189. mál
[20:34]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P):

Frú forseti. Frumvarp Pírata um kjararáð sem við tökum núna til 1. umr. er sáraeinfalt. Það felur bara í sér að Alþingi skipi kjararáði að láta laun þingmanna fylgja launaþróun á almennum vinnumarkaði. Það er það sem lögin segja og það er það sem lögin hafa lengi sagt. Þetta er sanngjarnt en þetta er líka praktískt. Eins og staðan er núna, þegar kjararáð fylgir ekki launaþróun á almennum vinnumarkaði og ráðamenn fá hækkanir langt umfram aðra í samfélaginu, finnst fólki það að sjálfsögðu ósanngjarnt og höfrungahlaupið byrjar, hið svokallaða höfrungahlaup þar sem ráðamenn eru komnir mjög framarlega og aðrir vilja sækja á.

Það gengur ekki ef Alþingi er ekki tilbúið að tryggja að laun ráðamanna í samfélaginu fylgi launaþróun almennings að Alþingi setji lög á verkföll launafólks þegar það vill fá launahækkanir sínar í takt við launaþróun ráðamanna. Þess vegna er þetta praktískt.

Varðandi fordæmi fyrir þessu, það að skynsamlegt sé og sanngjarnt að láta launaþróun ráðamanna fylgja launaþróun almennings, vil ég segja að árið 2002 tók Kjaradómur ákvörðun um 30% hækkun þeirra sem undir það heyra, ákveðinna hópa, m.a. þingmanna. Þá stóð ekkert á nýbökuðum forsætisráðherra, Davíð Oddssyni. Þingið var komið í frí, það var komið fram í júní en þáverandi hæstv. forsætisráðherra Davíð Oddsson hóaði þinginu saman, kallaði það úr fríi, því var stefnt á Þingvelli og bráðabirgðalög samþykkt, þar sem þau ákvæði komu fram sem ég nefndi; að Kjaradómur skyldi taka nýja ákvörðun eigi síðar en í lok mánaðarins og hún taka gildi 1. næsta mánaðar. Þau lög voru svo samþykkt. Þetta voru bráðabirgðalög sem voru samþykkt á þinginu um haustið.

Hver voru rökin? Ég ætla að reifa þau, með leyfi forseta. Í lögunum segir að nauðsynlegt sé, „að breyta þeim laga- og efnisreglum, sem niðurstöður Kjaradóms hvíla á, þannig að þær taki mið af stöðu og afkomuhorfum þjóðarbúsins og almennum launabreytingum í kjarasamningum annarra launþega í landinu. Á þessu ári hafi tekist að treysta stöðugleika í efnahagslífi þjóðarinnar. Ein mikilvægasta forsenda þessa stöðugleika felist í kjarasamningum við þorra launafólks um hóflegar launahækkanir. Afar brýnt sé að varðveita þennan stöðugleika og þá samstöðu, sem náðst hafi til að mæta þeim áföllum, sem þjóðarbúið hafi orðið fyrir. Niðurstöður Kjaradóms frá 26. júní sl. tefli þessum árangri í mikla tvísýnu. Staðfesting þessa komi m.a. fram í yfirlýsingum aðila á vinnumarkaði.“

Hvað sögðu aðilar vinnumarkaðarins strax eftir það? Á kjördag voru laun þingmanna og annarra ráðamanna ekki hækkuð um 30%. Nei, laun ráðherra, þingmanna og annarra voru hækkuð um rúm 44% og höfðu þá fyrr á árinu verið hækkuð um 13%. Með leyfi forseta les ég aftur úr frumvarpinu sem var samþykkt þegar þáverandi hæstv. forsætisráðherra Davíð Oddsson hóaði í alla og fékk þá á Þingvelli til að samþykkja það. Í lögunum segir, með leyfi forseta:

„Við 6. gr. laga nr. 92/1986, um Kjaradóm, með síðari breytingum, bætast tvær nýjar málsgreinar svohljóðandi:

Enn fremur skal Kjaradómur við úrlausn mála taka tillit til stöðu og þróunar kjaramála á vinnumarkaði, svo og efnahagslegrar stöðu þjóðarbúsins og afkomuhorfa þess.

Telji Kjaradómur ástæðu til að gera sérstakar breytingar á kjörum einstakra embættismanna eða hópa skal þess gætt að það valdi sem minnstri röskun á vinnumarkaði.“

Þetta er það sem Davíð Oddsson gerði, þá nýbakaður forsætisráðherra, vegna þess að það getur ógnað efnahagsstöðugleika að þorri launafólks fari í verkfall. Það er það sem við stóðum frammi fyrir.

Nú halda þessir kjarasamningar ekki 70% launafólks, eða kjarasamningarnir halda en forsendurnar eru brostnar. En aðilar vinnumarkaðarins hafa ákveðið að fresta því í ár að ákveða hvað þeir ætli að gera með það. Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða og skoða vel. Hvað þýðir þetta nákvæmlega? Þetta þýðir að Alþingi þarf ekki að klára þetta mál í kvöld, sem það hefði náttúrlega ekki gert því að fresturinn rennur út í kvöld, við vorum að fá þær upplýsingar núna. Alþingi hefur þá lengri tíma til að bregðast við þannig að ráðamenn séu ekki sá aðili sem er mótandi um launastefnu í samfélaginu. Ráðamenn eiga að fylgja á eftir, það er gott fordæmi þegar kemur að launaþróun, að ráðamenn fylgi á eftir þegar þeir sjá hvað aðrir hafa gert, hvað aðrir hafa fengið, svo að þeir hleypi ekki öllu í uppnám eins og við stóðum mögulega frammi fyrir.

Eru einhver önnur fordæmi? Þetta var 2002. Já, það eru önnur fordæmi. Annar nýbakaður forsætisráðherra á eftir Davíð Oddssyni, Halldór Ásgrímsson, stóð frammi fyrir svipaðri mynd, nema þá var það ekki 30% launahækkun sem Kjaradómur hafði gefið ráðamönnum, hún var ekki nema 6,15–8,16%. Rétt rúm 8% meðan það voru 2,5% á vinnumarkaði. Ráðamenn fóru örlítið fram úr launaþróun á vinnumarkaði og þá sá Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, tilefni til að setja lög. Ef ég má, með leyfi forseta, lesa athugasemdir við frumvarpið. Í upphafi segir:

„Með úrskurði Kjaradóms 19. desember 2005 endurákvarðaði dómurinn laun þeirra aðila sem undir Kjaradóm falla samkvæmt lögum nr. 120/1992. Úrskurðurinn fól í sér að 1. janúar 2006 skyldu laun forseta hækka um 6,15%, en laun annarra sem undir dóminn heyra að jafnaði um 8,16%. Frá sama tíma hækkuðu laun á vinnumarkaði almennt um 2,5%. Úrskurðurinn vakti harkaleg viðbrögð aðila vinnumarkaðarins sem töldu nýgerðu samkomulagi um kjaramál stefnt í hættu. Hinn 27. desember 2005 ritaði forsætisráðherra Kjaradómi bréf þar sem farið var fram á það að úrskurðurinn yrði endurskoðaður. Kjaradómur hafnaði þessu með bréfi dags. 28. desember 2005.

Í ljósi þeirra áhrifa sem úrskurður Kjaradóms gæti haft á stöðu vinnumarkaðsmála, þar á meðal nýgert samkomulag aðila vinnumarkaðarins um kjaramál, og þeirra ófyrirsjáanlegu áhrifa sem slíkt hefði á stöðugleikann í efnahagsmálum, er nauðsynlegt að bregðast við ákvörðun Kjaradóms frá 19. desember 2005. Hefur ríkisstjórnin ákveðið annars vegar að beita sér fyrir því að úrskurði Kjaradóms verði breytt með lagasetningu, þannig að í stað þeirra hækkana sem þar voru ákveðnar komi 2,5% hækkun frá 1. febrúar 2006, eins og gert er með frumvarpi þessu.“

Þetta eru viðbrögð ráðamanna þá. Tveir nýbakaðir forsætisráðherrar, Davíð Oddsson, forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins, og svo forsætisráðherra Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson. Ástæðurnar eru alveg skýrar. Sá sem raskar kjarasamningum þorra launafólks eða setur þá í hættu setur efnahagslífið í hættu. Þeirra orð. Þeirra orð í frumvörpum þeirra sem þeir fengu samþykkt. Eitt meira að segja sem bráðabirgðalög. Þingið kallað saman í snatri og málið klárað á þremur dögum á Þingvöllum.

Síðara frumvarpið, frumvarp Halldórs Ásgrímssonar, samþykkti núverandi forsætisráðherra Bjarni Benediktsson. Þegar launaþróun ráðamanna fór nokkrum prósentum fram úr launaþróun almennings skyldi gripið inn í þá ákvörðun og kjararáði, þá Kjaradómi, skipað að endurskoða afstöðu sína. Það er það sem frumvarp Pírata gerir. Það er allt og sumt sem frumvarp Pírata gerir. Það segir bara, með leyfi forseta, svo ég lesi úr frumvarpinu:

„Þrátt fyrir ákvæði 8. og 10. gr. skal kjararáð fyrir 28. febrúar 2017“ — að sjálfsögðu er hægt að breyta þessari dagsetningu því að nú er kominn 28. og alveg ljóst að Alþingi ætlar ekki að samþykkja þetta núna — „kveða upp nýjan úrskurð er feli í sér launalækkun alþingismanna og ráðherra sem samsvari því að laun þeirra fylgi almennri launaþróun frá 11. júní 2013.“

Ástæðan fyrir þessu er sú að sá tímarammi sem kjarasamningar 70% launafólks, sem eru núna brostnir vegna launaþróunar annarra hópa en á samt sem áður ekki að segja upp, það er á þeim forsendum sem þeir þurfa að fylgja. Og það er akkúrat á þeim forsendum sem sanngirnissjónarmiðin og þar af leiðandi skynsemissjónarmiðin koma inn. Ef maður er ekki sanngjarn í þessu vilja aðrir ekki vera sanngjarnir. Þá byrjar höfrungahlaupið og þá byrjar stöðugleikinn á vinnumarkaði og svo efnahagsstöðugleikinn í kjölfarið eins og bæði Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherrar, vöruðu við.

Áfram í 2. gr. frumvarps Pírata, með leyfi forseta:

„Ákvörðunin“ — um þessa lækkun til samræmis við launaþróun almennings — „skal taka gildi eigi síðar en 28. febrúar 2017. Jafnframt skal kjararáð svo fljótt sem auðið er endurskoða kjör annarra er undir það heyra, til samræmis.“ — Þ.e. annarra ráðamanna. — „Ákvæði þetta gildir ekki um forseta Íslands.“ Það er vegna stjórnarskrárinnar. Ekki er hægt að lækka laun hans á kjörtímabilinu.

Þetta frumvarp er algerlega byggt á frumvarpi sem Halldór Ásgrímsson lagði fram á sínum tíma og fékk samþykkt. Stóri munurinn er í raun sá að þá fóru ráðamenn nokkrum prósentustigum umfram almennan vinnumarkað. Í þessu tilfelli á árinu hafa ráðamenn farið, á kjördag, 44% yfir og fyrr á sama ári 13%.

Ég spyr: Er þetta ósanngjarnt? Er einhver sem vill koma í andsvör um það? Ég spyr landsmenn: Er þetta ekki borðleggjandi? Við erum búin að fá 44% hækkun á kjördag og 13% þar á undan.

Þetta er það sem þetta frumvarp snýst um. Staðan á vinnumarkaði er þannig að læknar munu endurskoða kjarasamninga sína í vor, grunnskólakennarar í haust, aðrir kjarasamningar, þrátt fyrir forsendubrest, 70% launafólks, 100 kjarasamningar, ASÍ og SA hafa ákveðið að þeir ætli ekki að grípa inn í það fyrr en á næsta ári þannig að Alþingi hefur tíma. Alþingi hefur fengið ákveðinn gálgafrest til þess að bregðast við, eins og Alþingi hefur svo oft brugðist við áður, til að tryggja að laun ráðamanna séu í samræmi við launaþróun almennings.

Svo legg ég til að lokum að málið gangi til efnahags- og viðskiptanefndar.