146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

kjararáð.

189. mál
[21:25]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég má til með að taka örstutt til máls vegna andsvars frá hv. þingmanni áðan, því að ég vil bæta því við að þetta frumvarp er í raun og veru byggt á eldra frumvarpi sem var lagt fram í kjölfar hrunsins. Í meðförum þess máls kom fram ábending frá Dómarafélagi Íslands um að orðalag sem hafði verið áætlað að hafa í frumvarpinu þess efnis að gæta skyldi að stjórnskipulegu sjálfstæði dómstóla með tilliti til heildarendurskoðunar á þeim kjörum sem laun dómara falla undir, þ.e. á þeim hópum sem kjararáð úrskurðar um, það væri ekki nauðsynlegt í ljósi þess að Dómarafélagið óskaði alla vega ekki eftir þeim orðum innan þessa frumvarps.

Ég vil einfaldlega koma því á framfæri að alla vega síðast í meðförum þessa máls var það ekki talið nauðsynlegt að taka sérstaklega fram að dómarar myndu ekki falla undir þetta frumvarp. En það má vissulega skoða hvort tilefni sé til þess núna ef við biðjum aftur um umsögn frá Dómarafélaginu.