146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

aðskilnaður fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

78. mál
[21:44]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef ég skil þessa tillögu rétt er það þannig að hér sé verið að leita leiða um hvernig hægt sé að aðskilja viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi. Ég vildi gjarnan spyrja hv. þingmann hvort það væri ekki skynsamlegra að athuga fyrst kostina og gallana við það með skýrum hætti. Það er augljóst að mikill ágreiningur er um þetta. Það er ágreiningur um hvort það sé yfir höfuð meiri kerfisáhætta í að hafa þá saman en í sundur. Ef maður skoðar þetta blessaða bankahrun var það kannski viðskiptahlutinn sem var vandamálið. Icesave var í viðskiptahlutanum, ekki í fjárfestingarbankahlutanum. Mér hefði fundist skynsamlegra að fara nákvæmlega yfir það fremur en að Alþingi álykti núna um að það eigi að aðskilja þetta. Þetta er eiginlega hvergi gert núna, hvergi í Evrópu alla vega, kannski að einhverjum hluta í Bandaríkjunum. En almennt er þetta ekki aðskilið. Sumir halda því jafnvel fram að það sé meiri kerfisáhætta að slíta þetta sundur. Ég hef enga skoðun á því, ég veit það ekki enn þá. Væri ekki rétt frekar að fara í þessa vinnu áður en við förum að afgreiða svona mál? Maður heyrir á sérfræðingum að mönnum finnst flestum óskynsamlegt að skilja alveg á milli, hugsanlega að hafa þetta eitthvert hlutfall. En að skilja alveg á milli finnst fæstum, ef nokkrum, sem ég hef talað við skynsamlegt.

Ég spyr: Er ekki skynsamlegt að fara í aðra vinnu á undan áður en við afgreiðum svona tillögu?