146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

aðskilnaður fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

78. mál
[22:01]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Jafn gaman og það er að standa í myrkraverkum á þingi langt fram eftir kvöldi þá ætla ég ekki að reyna að lengja þetta mál mjög mikið enda kom velflest fram í máli frummælanda sem skiptir máli varðandi þessa tillögu. Ég er meðflutningsmaður á henni vegna þess að þetta er alveg rosalega mikilvægt mál. Til að skýra afstöðu mína, fyrst vitnað var í mig hér áðan, þá hef ég sagt ítrekað á ýmsum vettvangi að það sé bráðnauðsynlegt að aðskilja fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi og að það sé engin ástæða til þess að selja þá banka sem eru í ríkiseigu í augnablikinu hreinlega vegna þess að það er ekki forgangsmál. Það er aftur á móti forgangsmál að lækka vexti, sérstaklega á skuldum ríkissjóðs, til þess að vera með minni útgjöld, óþörf útgjöld. En það er ekkert við skuldastöðu ríkissjóðs sem verður bætt með því einu að selja bankana. Aðalatriðið er að aðgreina þetta fyrst og búa til gott regluverk.

Það sem mig langaði til að benda á í þessari umræðu er að nú þegar er komin ein mjög ágæt umsögn frá Hagsmunasamtökum heimilanna og það ágætasta við þá góðu umsögn er að henni fylgir heilt frumvarp, þetta er tillaga að frumvarpi, eða frumvarpi til laga með s-i og bandstriki eftir því sem við á, þannig að það er mikið af svigum og alls konar góðgæti í þessu frumvarpi sem ég held að gangi ágætlega langt í þá átt að leysa það vandamál sem er lagt til að verði leyst. Mig langar að beina því inn í umræðuna að þetta getur verið einn af þeim punktum sem verður tekinn fyrir í nefndinni.

Til þess að lengja mál mitt aðeins í ljósi þeirrar umræðu sem hefur samt orðið þá verð ég að viðurkenna að mér blöskraði svolítið að heyra vanþekkingu félaga minna í efnahags- og viðskiptanefnd á hagsögu í máli þeirra um tilurð þeirrar aðgreiningar á viðskiptabönkum og fjárfestingarbönkum sem um ræðir og hvernig hún hefur þróast í gegnum tíðina. Þá er helst að nefna að svona aðgreining var fyrst tekin upp í Bandaríkjunum 1933 að mig minnir í kjölfar kreppunnar miklu og varð til þess að stöðugleiki komst á þar og hélst sá stöðugleiki töluvert lengi þrátt fyrir heimsstyrjöld og fleira. Það var byrjað að grafa undan þessari löggjöf 1960, var það að fullu gert 1999 með lögum þar. En sambærileg leið hefur verið farin í öðrum löndum, m.a. Evrópulöndum og er þar hægt að nefna nýlega skýrslu frá 2012, svokallaða Liikanen-skýrslu, þar sem talað er um mikilvægi þess að slík aðgreining verði gerð hér.

Það má einmitt vísa til þess að nú höfum við haft til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd ákveðnar tillögur sem eru byggðar á svokallaðri CRD IV-tilskipun Evrópusambandsins. Í hjálögðum skýringargögnum þessarar mjög svo löngu tilskipunar, sem hljóðar upp á að mig minnir 300 blaðsíður með 900 blaðsíðna reglugerð meðfylgjandi, er talað um kerfisáhættuna sem verður til vegna mismunandi tegunda af bankastarfsemi, m.a. hjá fjárfestingarbönkum og viðskiptabönkum, og hvernig áhætta hvorra um sig er töluverð og þolanleg ef það er vel að máli staðið. CRD gengur einmitt út á það að fást við þau vandamál. En samlegðaráhrifin, þegar þessari starfsemi er blandað saman, eru oft þess eðlis að ekki er hægt að koma böndum yfir þessa starfsemi eins og sést kannski vel á því að þegar þetta var leyft í Bandaríkjunum 1999 tók minna en áratug fyrir allt kerfið að fara í klessu hjá þeim. Þetta var náttúrlega á þeim tíma þegar svipuð aflétting á regluverki bankastarfsemi átti sér stað á Íslandi og úti um alla Evrópu og mætti kannski segja að hafi raunverulega haft töluvert meira með hrunið sem varð 2008 að gera en nokkurn tímann Icesave út af fyrir sig. Þó svo að Icesave hafi vissulega verið stór punktur í þeirri umræðu allri þá var það ekki Icesave sem leiddi bankana á Íslandi til falls. Það voru m.a. ástarbréfaviðskipti, það var fullt af áhættusömum og oft ótryggðum lánum sem veitt voru hingað og þangað, m.a. til góðvina eigenda bankanna. Þetta er það ástand sem við verðum að koma í veg fyrir að verði aftur á Íslandi.

Það að aðgreina viðskiptabanka og fjárfestingarbanka er í rauninni ekki einu sinni flókið atriði í því. Það er grundvallaratriði. Þetta er atriði sem maður framkvæmir áður en ráðist er í stóru, flóknu og erfiðu málin sem eru þó töluvert mörg þegar við erum að tala um reglur um nútímabankastarfsemi.

Í þessu skyni vitna ég, með leyfi forseta, til umsagnar Hagsmunasamtaka heimilanna, en þar segir:

„Útfærsla á slíkum aðskilnaði nú til dags þarf nauðsynlega að taka mið af þeirri þróun sem orðið hefur á fjármálamörkuðum, bæði innlendum og alþjóðlegum …“ — á þeirri tæpu öld sem liðið hefur síðan þeir ágætu menn Glass og Steagall voru að vinna sig upp úr alveg afskaplega slæmu hruni.