146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

aðskilnaður fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

78. mál
[22:31]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þessu viðhorfi að vissu leyti. Ég held engu að síður að þessi tillaga ætti að ná fram að ganga nú. Mig langar að stinga upp á því að það verði efnt til samvinnu hér, eftir þessi ágætu samtöl, um það hvernig eigi að leggja fram tillögu þess efnis að ráðast í heildræna endurskipulagningu á bankakerfinu og lífeyrissjóðakerfinu með þetta allt í huga. Hugsanlega væri hægt að setja það saman á þannig hátt að þessi tillaga gæti náð fram að ganga samhliða hinni og náð fram öllum markmiðunum samtímis. Ég held að þetta þurfi ekki að vera í andstöðu við hvort annað. Og það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að það er þannig ástand í hagkerfinu núna að ef við gerum þetta ekki núna erum við að missa af alveg frábæru tækifæri. Það væri í raun rangt að leyfa því bara að sleppa. Þetta er gott tækifæri.