146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að gera hér að umtalsefni, eftir því sem hægt er á tveimur mínútum, stöðuna hvað varðar þróun raungengis krónunnar og afkomu útflutningsgreina. Ég er reyndar búinn að biðja um sérstaka umræðu um það mál, sem kemst vonandi á dagskrá sem fyrst, við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra.

Styrking gengisins upp á u.þ.b. 15–25% gagnvart mörgum helstu myntum viðskipta- og útflutningssvæða okkar, ásamt með reyndar kostnaðarhækkunum ýmsum að auki og erfiðleikum á vissum mörkuðum, hefur gjörbreytt afkomu útflutningsgreina, sjávarútvegsins og annarra útflutningsgreina á skömmum tíma. Það er drifið áfram af hinum ævintýralega vexti ferðaþjónustunnar þar sem við sjáum núna á vetrarmánuðunum upp í 50–60% aukningu milli sömu mánuða frá því fyrir ári. Í fyrsta skipti í sögunni eru þjónustutekjur verðmætari en vöruútflutningar, á síðasta ári. Tekjur af komu erlendra ferðamanna eru að nálgast 40% af útflutningstekjum á sama tíma og sjávarútvegurinn er með 19% og álið með 15%. Svo dramatísk eru þessi umskipti í hagkerfinu.

En vandinn er sá að ruðningsáhrifin verða að sama skapi stórfelld verði ekki farið að taka í taumana. Minni og meðalstórum sjávarútvegsfyrirtækjum mun blæða út á næstu mánuðum eða misserum, og tækni-, þekkingar- og nýsköpunarfyrirtækin munu greiða atkvæði með fótunum og fara úr landi ef svo heldur sem horfir.

Stjórnvöld verða að vakna af dvalanum. Það er að byggjast upp ójafnvægi að þessu leyti sem hagkerfið mun ekki þola til lengri tíma litið, nema menn séu tilbúnir til að sætta sig við þau gríðarlegu ruðningsáhrif sem af því munu þá verða í hagkerfinu og enda allt saman illa að lokum með skarpri aðlögun og miklu hruni. Að mínu mati verður að stöðva ofris krónunnar þegar í stað og krónan þarf frekar að veikjast um 5–10% heldur en við þolum styrkingu hennar um sömu tölur. Stjórnvöld verða að vakna og það þarf að grípa til samræmdra aðgerða. (Forseti hringir.) Losun hafta gæti lagt þessu lið en lífeyrissjóðirnir þurfa, að mínu mati, (Forseti hringir.) að flytja fjármagn úr landi, Seðlabankinn þarf að halda áfram gjaldeyriskaupum og að lokum þarf væntanlega að bremsa eitthvað niður vöxt ferðaþjónustunnar til að hægt sé að ná tökum á ástandinu.


Efnisorð er vísa í ræðuna