146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Á alþjóðadegi hróssins ætla ég að byrja á að hrósa hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að vekja athygli hér áðan á ískyggilegri stöðu atvinnulífs og þjóðar vegna styrkingar krónunnar. Tek undir hans áhyggjur í því. En annað hrós fær líka Vegagerð ríkisins á þessum degi í tilefni af því að skilað hefur verið inn matsskýrslu til Skipulagsstofnunar um Vestfjarðarveg 60, eða kaflann á milli Bjarkarlundar og Skálaness í Reykhólahreppi. Nú er það í höndum Skipulagsstofnunar að fara yfir þessa skýrslu og hefur hún til þess fjórar vikur, eða til loka mars.

Það er svo sem ástæðulaust að rekja í einhverju löngu máli þá hörmungasögu sem þetta mál allt hefur verið. Týndur áratugur í samgöngum á Vestfjörðum sunnanverðum. Mál sem er með þvílíkum ólíkindum og hefur haldið íbúum Vestfjarða, sérstaklega á sunnanverðum Vestfjörðum, í algerum heljargreipum og allri uppbyggingu sem stendur fyrir dyrum. Þetta mál hefur verið þvílíkur flöskuháls að það verður að koma hér fram að það hlýtur að vera í algerum forgangi af hálfu framkvæmdarvaldsins og stofnunum þess að tryggja að þær vegasamgöngur sem þurfa að komast í gagnið á þessu svæði geri það. Og ekki síður að löggjafinn með sínu fjárveitingavaldi tryggi að svo geti verið því að það er ekki hægt að bíða lengur eftir þessum vegaumbótum.


Efnisorð er vísa í ræðuna