146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

framtíðarsýn í heilbrigðismálum.

[15:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa sérstöku umræðu og fyrir ræðu hennar, góðar hugleiðingar og ágætar spurningar. Ríkisstjórn Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins hefur sett heilbrigðismálin í forgang, eins og hv. þingmaður tók fram í ræðu sinni, og í stefnu ríkisstjórnarinnar er sérstök áhersla á heildræna nálgun á heilbrigðisþjónustuna og að landsmenn hafi aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að hér er ég að vitna beint í stjórnarsáttmálann en líka vegna þess að hv. þingmaður minntist á það að ég hef, svo ég vitni, í ræðu, riti og meira að segja á Alþingi rætt sérstaklega um að heilbrigðismálin eigi að vera í forgangi og ég vilji setja heildræna heilbrigðisstefnu, horfa yfir allt sviðið áður en ég fari að gera einhverjar stórar breytingar á kerfinu eins og það er. Ég vil fullvissa hv. þingmann um að það sem ég hef sagt í ræðu, riti og á Alþingi stendur jafn mikið hér í dag og það gerði þegar ég sagði það síðast.

Það er tekið fram í stjórnarsáttmálanum að heilbrigðismálin séu sérstakt forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Það er í takt við þá umræðu sem hv. þingmaður minntist á í kjölfar m.a. stórrar undirskriftasöfnunar og margra skoðanakannana þar sem kemur fram að mikill meiri hluti landsmanna telur að heilbrigðismálin eigi að vera í forgangi. Það er þess vegna fyrir mér mjög mikilvægt að þetta sé fyrsta atriðið og aðalatriðið sem dregið er upp í stjórnarsáttmálanum sem áhersluatriði og réttilega mikil ábyrgð sem hvílir á þeim sem hér stendur.

Þegar við tölum um að setja heilbrigðismálin í forgang erum við að tala um að auka fjármagn í málaflokkinn. Við erum að tala um uppbyggingu á innviðum heilbrigðisþjónustunnar, bæði varðandi aðstöðuna en ekki síður varðandi mannaflann, starfsaðstöðu heilbrigðisstétta og við þekkjum umræðu frá síðustu dögum um stöðuna þegar kemur að hjúkrunarfræðingum. Það skiptir miklu máli fyrir okkur, ekki bara í skammtímanum heldur til lengri tíma, að við byggjum undir heilbrigðisstéttirnar.

Þessa dagana er í gangi vinna að undirbúningi fimm ára fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar og í því samhengi er auðvitað verið að skoða bæði útgjaldaþörf en líka tekjuáætlun og útlit fyrir næstu árin. Það er dálítið erfitt að tala nákvæmlega um upphæðir á meðan þessi vinna er akkúrat í gangi en það er alla vega ljóst að með þeirri áherslu um að heilbrigðismálin séu í forgangi er ætlunin að auka í málaflokkinn og að auka hlutfallslega, sem hlutfall af landsframleiðslu. Ég hef samt verið dálítið efins um að ríghengja viðmiðið við ákveðna prósentu af landsframleiðslu vegna þess að landsframleiðsla skoppar upp og niður og við viljum heldur ekki festa okkur í fyrirframgefinn sparnað ef landsframleiðsla minnkar.

Ég vil minna á að þessi viðspyrna, eða hvað við eigum að kalla það, í heilbrigðiskerfinu, fjármögnun heilbrigðiskerfisins, er löngu hafin. Bara á milli fjárlaga fyrir árið 2016 og fjárlaga fyrir árið 2017, fjárlög sem voru samþykkt á Alþingi áður en ríkisstjórnin myndaði meiri hluta og tók við völdum, er gert ráð fyrir 10% aukningu á milli ára til heilbrigðismála. Það munar um minna. Auðvitað er stór hluti af því sem fer í fastar hækkanir, launaliði o.s.frv., en þar er verið að stíga stór skref.

Uppbygging nýs Landspítala er sömuleiðis mjög stórt skref.

Ég verð eiginlega að biðjast afsökunar á að ég hafi ekki komist nema rétt inn í umræðuna og það sem ég hafði undirbúið fyrir hana og vona að ég komi betur inn í hana í seinni ræðu og tali þá enn hraðar en mér tókst núna.