146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

framtíðarsýn í heilbrigðismálum.

[16:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Nú ríður á að tala hratt. Í fyrsta lagi sem viðbrögð við tilvitnuðum orðum í þann sem hér stendur frá 25. janúar 2016 um áætlun um hvert skuli stefna. Nokkrum mánuðum eftir það kom fram fjármálaáætlun til fimm ára og á grundvelli hennar 10% aukning til heilbrigðiskerfisins í fjárlögum 2017. Vinna við fimm ára fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar er í gangi og ætti að svara mörgum spurningum sem hér hafa komið fram, í henni mun sjást stefnumörkun í takt við þá áherslu á heilbrigðismálin sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum.

Í sambandi við þau skýru svör sem kallað er eftir frá þeim sem hér stendur um framtíðarsýn á heilbrigðiskerfið er sú skýra sýn í takt við annars vegar stjórnarsáttmálann og hins vegar það sem sá sem hér stendur hefur margoft sagt áður, að ég hef ekki sérstaklega í huga eða langar til að gera stórkostlegar breytingar á heilbrigðiskerfinu nema til að styrkja það og styðja. Í dag fara upp undir 30% af opinberu fjármagni sem fer í heilbrigðisþjónustu á einhvern hátt í rekstur á vegum sjálfseignarstofnana, sjálfstæðra sérfræðinga — eða hvað? Ég hef engar sérstakar áætlanir um að gera stórar breytingar þar á.

Ég tek undir með þeim sem tala um forvarnir. Það er mikilvægt að við horfum á heilbrigðismálin, ekki bara út frá því hvernig við bregðumst við sjúkdómum og áföllum heldur líka hvernig við fyrirbyggjum það með því að byggja undir heilbrigði.

Hér er ég með ansi marga punkta sem ég veit að ég næ ekki að fara yfir en ég vísa enn og aftur til orða í stjórnarsáttmálanum um uppbyggingu heilsugæslunnar, (Forseti hringir.) um uppbyggingu óháð búsetu og óháð fjárhag.

Þegar kemur að neyslustýringu, sykri, áfengi o.s.frv., styð ég lýðheilsumarkmið en ég er ekki fullviss um að það (Forseti hringir.) sé bara ein ríkislausn á öllum málum. En við verðum að taka frekari umræðu síðar. (Gripið fram í: Skrifaðu grein. …)