146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

rafræn birting málaskráa og gagna ráðuneyta.

175. mál
[17:41]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Hv. forseti. Ég vil byrja á að fagna að þessi þingsályktunartillaga hafi verið lögð fram af hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur. Ég held að þetta sé mjög gott mál. Ég held að við eigum að stefna að því að hafa stjórnsýsluna og gögn og málsmeðferð alla eins opna og hægt er. Ég held að þetta geti verið mjög góður liður í því. Ég held að þetta sé mál sem varði einstaklinga og margs konar hagsmunaaðila, að þeir geti haft greiðan aðgang að því að fylgjast með ferli mála og eftir atvikum nálgast þau skjöl sem mál varða. Ég tek eftir því í greinargerð og þarf ekki að taka fram að það þarf auðvitað að hafa hliðsjón af lögum og reglum sem varða persónuvernd og þess háttar. Ég vildi fyrst og fremst lýsa ánægju minni með þetta en jafnframt spyrja hvort hv. þingmaður hafi velt fyrir sér eða hafi einhverjar hugmyndir um það hversu vel við erum undir það búin að ráðast í þetta verkefni, einhverja hugmynd um kostnað og eftir atvikum tímaramma sem gæti verið í þessu. Það væri gaman ef hv. þingmaður gæti aðeins komið inn á þau mál.