146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

skipun starfshóps til að endurbæta löggjöf um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra.

87. mál
[18:50]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um skipun starfshóps til að endurbæta löggjöf um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra.

Hér er um að ræða þingmál sem á í raun og veru rætur að rekja aftur í kjörtímabilið 2009–2013. En ástæðan fyrir því að ég þreytist ekki á að leggja málið fram og meira að segja stundum að mæla fyrir því, er að hér er um að ræða töluvert sterkan grundvöll sem er til, þ.e. skýrslu sem ber heitið Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra, sem unnin var af sérstakri nefnd um lagalega stöðu þessa málaflokks sem skipuð var af þeirri sem hér stendur, þá í embætti umhverfis- og auðlindaráðherra. Skýrslan var í mínum huga fyrsti áfanginn í samningu frumvarps til nýrra laga um vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og spendýrum sem kæmi í stað eldri löggjafar um þessi málefni. Það hefur lengi verið rætt að sú núgildandi löggjöf sé að mörgu leyti úrelt og að full ástæða sé til að endurskoða hana.

Til dæmis er það að nefna að núverandi villidýralög, eins og þau eru kölluð, villidýralögin, ná ekki til hvala og sela og að í þeim er megináhersla lögð á veiðar. En haldbær lög ættu auðvitað að ná til allra villtra spendýra, hvort sem þau lifa á láði eða legi og jafnframt þarf að stilla af og auka vægi verndarsjónarmiða í löggjöf sem þessari og tryggja það að þeim sé gert jafn hátt undir höfði og veiði- og nytjasjónarmiðunum. Það er í samræmi við strauma og stefnur í náttúruverndar- og umhverfislöggjöf almennt og er full ástæða til þess að uppfæra þennan málaflokk.

Það er góður bragur á því að mínu mati að freista þess að jafnaði þegar við leggjum í nýja löggjöf á hverjum tíma að byggja hana á svona skýrslu, á einhvers konar grundvelli, en sá máti hefur ekki endilega verið hafður á varðandi laga- eða frumvarpssmíð hér á landi. Í löndunum í kringum okkur eru þetta stundum kallaðar grænbækur eða hvítbækur og er þá settur töluverður tími í að vinna slíkan grundvöll sem síðan er settur í umsagnaferli og á grundvelli þess samráðs er síðan ráðist í löggjöf.

Nú vill svo til að mér barst þessi skýrsla mjög seint á kjörtímabilinu 2009–2013, þannig að mér þykir afar mikilvægt að þráðurinn sé tekinn upp. Og í ljósi þess að nú er komin enn ný ríkisstjórn tel ég rétt að freista þess að ná samstöðu hér í þinginu um að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að skipa starfshóp sem endurskoði þessa löggjöf byggða á þeim tillögum og ábendingum sem fram koma í umræddri skýrslu.

Ég geri ráð fyrir því að tillagan fari til umfjöllunar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og vænti þess, þar sem hér er fyrst og fremst um það að ræða að uppfæra þessa löggjöf til nútímans, að ekki verði um það stórkostleg pólitísk átök heldur fái tillagan góðan framgang og verði síðan samþykkt hér síðar á þessu þingi.