146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

skipun starfshóps til að endurbæta löggjöf um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra.

87. mál
[18:55]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mun í það minnsta ekki valda hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur þeim vonbrigðum að upphefja hér stórpólitísk átök um þetta mál, enda er ég einn af flutningsmönnum þess og langaði bara rétt aðeins að koma hér upp og fagna því frumkvæði sem hv. flutningsmaður hefur sýnt á þessu sviði með því að flytja málið í það minnsta nokkrum sinnum og jafnframt að fagna baráttu hv. þingmanns fyrir því að fá það samþykkt.

Samfélag eins og okkar, sem byggir að einhverju leyti á nýtingu náttúrunnar, á að gera það að sínu aðalsmerki að ganga vel um þá náttúru, og heildstæð löggjöf á því sviði á að vera eins nútímaleg og fullkomin og mögulegt er. Það kemur kannski ekki heldur á óvart að ég sé sammála hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur um að þetta verði ekki skilið í sundur, þ.e. annars vegar vernd og hins vegar veiðar, að horfa verði heildstætt á það. Í raun finnst mér þetta byggja á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, eins og reyndar svo margt þegar grannt er skoðað, um að þannig sé að málum staðið.

Sjálfur þekki ég málaflokkinn aðallega út frá því að ég er einn þeirra sem stunda af og til veiðar á villtum fuglum og hef kappkostað frá því ég hóf það að gera það eins siðlega og mögulegt er við slíka athöfn. Um það á alltaf að vera sem best regluverk og sem nútímalegast.

Ég fagna því að þetta mál sé komið fram. Ég hlakka til að fá það inn á borð okkar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og mun leggja mitt af mörkum til að það nái fram að ganga.