146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

brottnám líffæra.

112. mál
[19:26]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka flutningsmanni þessa frumvarps fyrir framsöguna. Mig langaði að spyrja aðeins. Ég er almennt fylgjandi því að það sé ætlað samþykki frekar en ætluð neitun, en ég staldra svolítið við síðasta part 1. gr. frumvarpsins þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Ekki má þó nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings til að nota við læknismeðferð annars einstaklings leggist nánasti vandamaður hins látna gegn því.“

Eins kemur fram á bls. 2 í greinargerð frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Einnig er lagt til að óheimilt verði að nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings til nota við læknismeðferð annars einstaklings leggist nánasti vandamaður hins látna gegn því. Gildir einu þótt hinn látni hafi lýst sig samþykkan því.“

Nú spyr ég mig hvað varðar sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga hvort það skjóti ekki svolítið skökku við að nánustu vandamenn hins látna geti fengið að taka ákvarðanir fyrir hönd hans ef vilji hans liggur skýr fyrir fyrir andlátið. Hver eru rökin fyrir því að í raun og veru taka þetta vald af umræddum einstaklingi? Er einhver sérstök ástæða fyrir því að þetta er hérna inni?