146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

staða og stefna í loftslagsmálum.

205. mál
[11:53]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka, eins og aðrir, hæstv. ráðherra fyrir þessa mikilvægu skýrslu og fagna umræðunni. Það er fagnaðarefni að við skulum vera að ræða stefnu í loftslagsmálum í dag. Umhverfis- og loftslagsmál eru ekki lengur einkamál hugsjónafólks, þau eru lykilforsenda framtíðarhagvaxtar og lífsafkomu. Ekkert verkefni er brýnna á okkar tímum en að stemma stigu við þeirri þróun sem við stöndum frammi fyrir.

Vissulega er ágætt að hafa hitaveituvætt allt á sínum tíma en við þurfum að gera miklu betur. Íslensk stjórnvöld hafa einkum unnið eftir Kyoto-bókuninni og á síðasta kjörtímabili var sett fram þriggja ára sóknaráætlun sem hefur að geyma 16 verkefni sem eiga að skerpa á áherslum Íslands í loftslagsmálum. Þar eru nokkur verkefni sem eru sérstaklega mikilvæg. Má þar nefna orkuskiptaáætlunina sem dæmi. Í skýrslu umhverfis- og auðlindaráðherra er að finna sérstakan kafla sem snýr að orkuskiptum í samgöngum og sjávarútvegi. Vissulega hafa verið stigin góð og jákvæð skref í þessa átt innan ramma aðgerðaáætlunar. Má þar nefna lækkun gjalda og skatta á loftslagsvæna bíla og eldsneyti og styrki til innviða fyrir rafbíla. Þessar aðgerðir gætu þó verið mun meiri og stærri því að við erum í lykilstöðu hvað varðar rafvæðingu samgangna. Samgöngur voru ábyrgar fyrir 19% af heildarútstreymi á Íslandi árið 2014 eins og fram kom hér fyrr í dag.

Fram kom í máli ráðherra áðan að við stöndum okkur ágætlega, ekki síst vegna aðgengis okkar að endurnýjanlegum orkugjöfum og hitaveituvæðingu. Losun okkar er hins vegar enn allt of mikil. Þar getum við gert betur. Þó að losun okkar vegi ekki þungt í losunarbókhaldi heimsins getur breytni okkar orðið öðrum til eftirbreytni og orðið fyrirmynd fyrir þá sem vilja gera vel.

Vilji til góðra verka þarf að endurspeglast í samvinnu ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og almennings og ég treysti því að okkur takist að leggja sérhagsmuni einstakra aðila til hliðar og greiða fyrir því að almannahagsmunir verði ofan á. Sem einstaklingar og neytendur getum við líka lagt þung lóð á vogarskálarnar með því að stíga lítil skref í þá átt að verða meðvituð um neyslu okkar og hegðun. Meðvitund er fyrsta skrefið og mörg lítil skref skila okkur langt ef við viljum.

Ég tel að það sé mikilvægt hlutverk okkar hér, sem berum ábyrgð á þessari stefnumótun til framtíðar, að auka vitundarvæðingu í þessum málaflokki. Fjölmargir gera vel nú þegar og er áhugavert að fylgjast með því og sjá hópa hér í vinnu við að tína upp plast sem er á leið út í sjó. Ég vil þar nefna sérstaklega Reykjavíkurborg sem stendur í ströngu við að innleiða vistvænar samgöngur og skipulag þéttbýlis einmitt með þetta markmið í huga. Akureyrarbær og Vistorka vinna líka virkilega vel í þessum efnum og ég fagna því. Það er áhugavert að fylgjast með því sem þau eru að gera. Það verður áhugavert að fylgjast með nýrri aðgerðaáætlun og taka þátt í því og ég er nokkuð bjartsýn á að við getum sameiginlega náð góðum árangri í þessum málaflokki.