146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

staða og stefna í loftslagsmálum.

205. mál
[12:11]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við skýrslu umhverfis- og auðlindaráðherra um stöðu og stefnu í loftslagsmálum. Mig langar að byrja á því að óska hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra til hamingju með skýrsluna.

Skýrslan er gott innlegg í það verkefni sem við Íslendingar, eins og aðrar þjóðir, höfum náð samkomulagi um að fara í, þ.e. að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda. Það kemur fram í skýrslunni að aðgerðaáætlunina eigi fyrst og fremst að byggja á greiningu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem kynnt var í síðasta mánuði, Ísland og loftslagsmál. Ég vil kannski í framhaldi ítreka að þetta er ákveðið innlegg í umræðuna vegna þess að auðvitað eigum við eftir að þróa þetta áfram, það er ekki eins og þetta sé lokaplaggið sem eigi að gilda til 2030, við erum að fara í vinnuna og hvernig við sjáum þetta fyrir okkur til lengri tíma. Það á því mikil vinna eftir að fara fram.

Það sem mér finnst hins vegar mjög gott í skýrslunni frá Hagfræðistofnun er að það koma tölfræðileg gögn inn í málið yfir ýmsa málaflokka og þetta er greint betur þannig að við getum séð það betur fyrir okkur hvernig við þurfum að taka á einstökum verkefnum.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ, sem var kynnt núna í febrúar, eru dregnir fram möguleikar Íslands til að draga úr nettólosun og áætlaður kostnaður hverrar aðgerðar, sem ég hef ekki séð áður. Þar eru dregnir fram átta áherslupunktar:

Orkuskipti í samgöngum. Aðgerðir miða að því að hlutfall visthæfra endurnýjanlegra orkugjafa verði 10% árið 2020.

Í dag er þetta hlutfall komið í um 6% og hefur vaxið hröðum skrefum nú á allra síðustu misserum. Við sem fylgjumst aðeins með og höfum áhuga á þessu vitum að á síðustu þremur mánuðum síðasta árs sáum við miklar breytingar í kaupum á vistvænum bifreiðum. Þess ber þó að gæta að bílaleigurnar kaupa stóran hluta af innfluttum bifreiðum á Íslandi og þær hafa ekki þessa sömu hvata og almenningur til að kaupa vistvænar bifreiðar. Það verður að hafa í huga.

En svo við vindum okkur aftur í skýrslu Hagfræðistofnunar. Þar er annar punktur rafbílar og efling innviða á landsvísu. Aðgerðir miða að því að styrkja innviði sem mikilvægir eru rafbílavæðingu svo sem uppsetningu hraðhleðslustöðva.

Þriðji punktur er vegvísir sjávarútvegs um samdrátt í losun. Aðgerðir miða að því að draga úr losun um 40% í sjávarútvegi árið 2030 miðað við 1990.

Það kemur líka fram í skýrslunni að umtalsvert hefur dregið úr losun í sjávarútvegi frá 1990. Skipum hefur fækkað og minni brennsla er á jarðefnaeldsneyti þar. Síðan eru miklar væntingar til nýrrar tækni í skipum sem er að koma fram í nýjustu skipunum, þar sem skrúfur eru stærri og eldsneytisþörfin minnkar umtalsvert. Það verður spennandi að fylgjast með því hvaða áhrif það mun hafa á sjávarútveginn.

Þá er það loftslagsvænni landbúnaður. Unnið verður að því að setja fram vegvísi um samdrátt frá landbúnaði.

Síðan er getið í skýrslunni um eflingu skógræktar og landgræðslu. Áætlað er að setja meira fjármagn í skógrækt og landgræðslu.

Endurheimt votlendis. Áætlað er að setja á fót verkefni sem miðar að endurheimt votlendis.

Kolefnisjöfnun í ríkisrekstri. Styrkja á verkefni sem stuðla að kolefnisjöfnun í ríkisrekstri.

Átak gegn matarsóun. Efla á verkefni sem stuðla að minni matarsóun.

Ég ætla að leggja áherslu á tvo punkta hérna. Annars vegar er það verkefni sem sett var á laggirnar 2010–2011, minnir mig, um græna orku og orkuskipti, sem snýr þá að rafbílum, hleðslustöðvum og hraðhleðslustöðvum og slíku. Það er heilmikið að gerast þessar vikurnar í þessum málum. Ætli það séu ekki u.þ.b. tvær til þrjár vikur frá því að úthlutað var úr sjóðum á vegum ríkisins 201 millj. kr. næstu þrjú árin, 67 millj. kr. á ári, þ.e. 40% styrkir upp í um hálfan milljarð sem fara í framkvæmdir við rafhleðsluvæðingu og hraðhleðsluvæðingu í landinu. Þar er verið að stíga stór og mikilvæg skref.

Mig langar líka að minnast á skógrækt og landgræðslu sem er einn af punktunum. Við Íslendingar höfum verið að setja um 250 millj. kr. í skógræktina á undanförnum árum, í útplöntun. Það er heilmikið talað um þetta í skýrslunum, sérstaklega í skýrslu Hagfræðistofnunar, að þar gæti náðst mikill árangur. Það er spurning hvort kominn sé tími til að við þyrftum í samhengi við þetta að fara að skoða skógræktarlögin, hvort við sjáum eitthvað sem þarf að breyta þar og þá líka varðandi landsáætlun í skógrækt, hvort við á hinu háa Alþingi höfum áhuga á að bæta í þar. Það er mjög áhugavert að lesa um það í skýrslunni hversu miklum árangri er hægt að ná þar. Ég þekki minna til landgræðslunnar, en ég hef grun um að Landgræðslan og Skógræktin hafi hug á að vinna sameiginlega í þessum málum og séu að fullu tilbúin í þá vinnu.

Síðan vil ég aðeins minnast á mikilvægi þess að þetta sé unnið með sveitarfélögunum í landinu, sem eru náttúrlega grunnurinn, nálægðin við íbúana og annað, það hefur mikil áhrif á þetta. Það er ekki mikið talað um það í þessari skýrslu en kannski þyrfti að fara dýpra í það dæmi. Nú þekki ég það frá Akureyri að þar hefur verið markviss moltugerð frá 2006, það var tekin ákvörðun um það, var mjög stórt og mikið átak. Við erum með Vistorku, við erum með metanframleiðslu þar og slíka þætti. Við erum að gera ýmislegt og þetta er gríðarlega spennandi. Ég vil ekki vera allt of bölsýnn í þessum málum. Mér finnst mörg góð skref hafa verið stigin á undanförnum misserum og árum. Ég held að við séum á réttri leið með mörgum þeirra. Auðvitað þurfum við að gera vel en við þurfum að vera markviss í þeirri vinnu og leggja öll eitthvað til.