146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

staða og stefna í loftslagsmálum.

205. mál
[12:37]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla nú að byrja á því að óska hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra til hamingju með skýrsluna og til hamingju með afmælið. Þetta er góður dagur til að leggja fram svona mikilvæga skýrslu.

Aðeins hefur verið rætt hér um gildi skýrslunnar og innihald hennar. Ég lít svo á að hér sé svolítil SNÓT-greining í gangi. Við erum nefnilega nýbúin að fá spark í rassinn í skýrslu frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Þar kemur fram að það er líklegt að losun verði um 10–16% meiri árið 2030 en hún var árið 1990, það er fyrir utan stóriðjuna, en við ættum að stefna á 35–40% minnkun, þannig að verkefnið er klárlega stórt.

Þá eru tækifærin víða. Eins og segir í skýrslunni eru mörg íslensk fyrirtæki framarlega á sviði loftslagsvænnar tækni og endurnýjanlegrar orku. Meðvitund um loftslagsvandann og áhuga á lausnum hefur stóraukist á undanförnum misserum og æ fleiri sveitarfélög og fyrirtæki setja sér framsækna loftslagsstefnu. Þar er ég virkjunarsinni. Við eigum nefnilega að virkja þann áhuga, þá orku og þá þekkingu.

Þá ef ég fer yfir það sem þarf að gera og þá þætti sem nefndir eru í skýrslunni. Þar ber fyrst að nefna orkuskipti í samgöngum og sjávarútvegi, sem er mjög áhugavert verkefni og við erum klárlega komin af stað með það. Hér hefur nýlega verið lögð fram þingsályktunartillaga um það efni. En það er fleira sem huga þarf að.

Hv. þm. Valgerður Gunnarsdóttir kom inn á flutningskerfi okkar áðan. Við í hv. umhverfis- og samgöngunefnd vorum einmitt í heimsókn í gær hjá Landsneti. Þar þurfum við að ná árangri. Þar getum við á þingi beitt okkur fyrir að einfalda og skýra línur þannig að þetta mikilvæga mál nái í gegn því að orkuskiptin munu ekki geta átt sér stað öðruvísi en að við náum að dreifa rafmagninu sem víðast um landið.

Hvað landbúnaðinn varðar er talað um það hér að tækifæri til að draga úr losun í landbúnaði séu almennt talin minni en á mörgum öðrum sviðum. Þá tek ég undir með hæstv. ráðherra um að mikilvægt er að skoða hvernig hægt er að hvetja enn frekar til þess við endurskoðun á búvörusamningnum.

Þegar litið er til kolefnisbindingar með landgræðslu og skógræktar er það mjög mikilvægt. Hvar sem það leggst svo sem í þessum debet- og kredit-reikningi skiptir það engu að síður mjög miklu máli. Ég ætla að fá að grípa niður í skýrsluna, með leyfi forseta. Þar segir:

„Ekki má eingöngu horfa til skjótfenginnar kolefnisbindingar við aðgerðir á þessu sviði, heldur horfa á fjölþætt vistfræðileg og samfélagsleg markmið skógræktar og landgræðslu og taka tillit til sjónarmiða á borð við vernd líffræðilegrar fjölbreytni og að skógur og uppgrætt land falli vel að landslagi.“

Ég tek heils hugar undir það.

Þá er líka komið inn á endurheimt votlendis. Þó að ég taki alveg undir að það sé ekki stóra lausnin á öllum okkar málum er það engu að síður mjög mikilvægt. Ég furða mig í rauninni á því hvað við erum stutt komin í rannsóknum á því og hvet ráðherra til dáða í þeim efnum.

Stóriðjan er auðvitað sá þáttur sem losar hvað mest hjá okkur. Þá er hægt að horfa til þess að við erum engu að síður með umhverfisvæna stóriðju í þeim skilningi að hér er rafmagnið umhverfisvænt.

Mig langar í því samhengi að nefna að ég var á aðalfundi hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands í morgun. Þar var áhugavert að heyra erindi til að mynda frá rannsóknaraðila ELKEM sem vinnur hjá Nýsköpunarmiðstöð hvað stóriðjan getur gert góða hluti í samstarfi við rannsóknarstofnanir og háskólasamfélagið. Þarna var útskýrt eitt nákvæmt dæmi þar sem hægt væri að minnka kolefnissporið. Við eigum auðvitað að virkja það.

Þá kem ég inn á það sem mér finnst allra mikilvægast, það eru rannsóknir og nýsköpun. Þar tel ég að við eigum að beita okkur. Það eru nefnilega víða tækifæri í þeim efnum. Við eigum að leggja línurnar. Við eigum að skapa þessar aðstæður. En það eru svo margþættar lausnir sem þarf til að ná þessum árangri. Við eigum líka mörg tækifæri í útflutningi á þekkingu á þessu sviði. Við eigum að nýta þau.

Ég sé að tíminn er að hlaupa hér frá mér, þetta er allt of stuttur tími til að fara yfir svona stórt og mikilvægt mál. En mig langar að lokum að grípa niður í lok skýrslunnar, með leyfi forseta. Þar stendur:

„Ísland getur verið í fararbroddi í viðleitni til að draga úr losun. Það gerist þó ekki af sjálfu sér, heldur einungis ef settur er aukinn kraftur í verkefni í loftslagsmálum, yfirsýn bætt og unnið í víðtækri samvinnu. Í þessari skýrslu er sett fram sýn um næstu skref og helstu þætti aðgerðanna fram undan í loftslagsmálum. Langtímaárangur Íslands mun byggja á vilja stjórnvalda og almennings til að hrinda góðum hugmyndum í framkvæmd. Ef sá vilji er fyrir hendi verður hægt að ná settu marki með margþættum ávinningi til lengri tíma litið.“

Sá vilji er fyrir hendi. Sá vilji birtist skýrt í stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég heyri ekki betur í þessum þingsal en að hér sé vilji til að gera nákvæmlega það, þannig að einhendum okkur í það verk. Látum verkin tala og náum árangri.