146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

staða og stefna í loftslagsmálum.

205. mál
[12:53]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka af öllu hjarta fyrir alveg frábæra umræðu í dag. Ég er þakklát fyrir að hér hafa þingmenn allra flokka og margir í hverjum flokki, ekki bara hvatt þann ráðherra sem hér stendur áfram heldur líka lýst því yfir að þeir séu tilbúnir í verkefnið. Það veitir mér mikla von. Þetta stóra verkefni sem við stöndum frammi fyrir verður ekki unnið einungis í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, það þarf stjórnvöld, auðvitað alla ríkisstjórnina, til. Það þarf allt Alþingi til og það þarf almenning, atvinnulíf, sveitarfélög o.s.frv. Annars tekst okkur þetta ekki, það er bara svoleiðis.

Kannski er ákveðin mótsögn falin í því að maður sé bjartsýnn á það að verkefnið takist þegar vandinn er svo mikill, sem mér heyrðist koma fram í máli eins hv. þingmanns áðan. En verkefnið er þó þannig að við sjáum að við getum leyst það. Í því felst bjartsýni mín og ég verð enn bjartsýnni þegar ég heyri orð hv. þingmanna og hvernig þeir vilja einhenda sér í málið.

Ég vil líka segja að til þess að okkur takist þetta þarf eignarhaldið á verkefnunum að vera breitt. Það mega allir skreyta sig með þeim fjöðrum þegar okkur tekst að vera leiðandi í loftslagsmálum. Þangað ætlum við að fara. Þetta verkefni er ekki fyrir einn né neinn til þess að segja: Sjáið hvað ég gerði. Alls ekki. Þetta gerum við einungis saman og ég verð að segja að ég er mjög hrærð yfir því og þakklát (Forseti hringir.) að heyra hvernig þingheimur, ekki aðeins skilur þetta flókna verkefni, því að það er mjög flókið, heldur tekur fólk höndum saman og vill gera vel. Ég veit að þá er leiðin greið.