146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

skýrsla um könnun á vistun barna á Kópavogshæli.

[14:14]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir þessa þörfu umræðu. Við, þingmenn og samfélagið, þurfum að draga lærdóm af fortíðinni og gera betur í framtíðinni í þessum málum. Við þurfum að fá ábendingar og tillögur um hvernig við getum staðið betur að málum. Það er sem betur fer margt sem fer betur í þessum málaflokki en hefur gert áður. Við sem þekkjum til af langri sögu áttum okkur á því að fatlaðir einstaklingar búa nú við mun betri kjör en áður. Þannig búa æ fleiri í eigin íbúðum, í sambýlum. Skólaganga þeirra sem voru með Downs-heilkenni var óhugsandi fyrir nokkrum árum síðan, svo maður taki eitt dæmi. Það er margt sem horfir betur.

Það eru líka lögin um almennar íbúðir sem samþykkt voru einróma á síðasta þingi. Þau hjálpa þessum einstaklingum til að geta búið við mannsæmandi kjör á leigumarkaði. Þá er ekki síst NPA-þjónustan sem við þurfum að halda áfram að ljúka við að lögfesta á þessu ári.

Ég er líka talsmaður og það er afar ánægjulegt að fá að vinna með þessu fólki. Það er mikil fegurð sem hvílir yfir því starfi sem er unnið fyrir þetta fólk á Íslandi í dag þar sem fötluðum eru tryggð tækifæri til sjálfstæðs lífs, til menntunar og til vinnu. Það er mjög mikilvægt og við skulum halda áfram á þeirri leið. Þá farnast okkur vel.