146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

skýrsla um könnun á vistun barna á Kópavogshæli.

[14:29]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Það er margt dapurlegt í þeirri skýrslu sem er til umræðu og það er þakkarvert að hún skuli vera tekin til umræðu og okkur til áminningar. Það er margt svo dapurlegt að ekki er hægt að afsaka það með neinum hætti, en það er hægt að biðjast fyrirgefningar og rétta hlut þeirra sem hægt er.

Við megum aldrei líta á stofnanir sem geymslu. Þetta eru heimili. Það ber að koma fram við alla heimilismenn af fullri mannvirðingu eins og við ætlumst til að sé komið fram við okkur. Hver og einn einstaklingur hefur sína sérstöðu. Hann má hafa hana. Við skulum rétta honum hjálparhönd.

Við lestur skýrslunnar kemur fram að í lögum frá 1932 um barnavernd er sagt að það eigi að útvega ungmennum heimili verði barninu misboðið með líkamlegu ofbeldi, illu atlæti, of mikilli vinnu, slæmum aðbúnaði eða heimilisaðstæður verði þannig að leitt geti til heilsutjóns fyrir það svo og ef ekki verður séð fyrir lögskipuðu námi. Tilgangurinn er fallegur. Og sömuleiðis í lögum sem eru frá 1936 um stofnanir sem ég vil helst ekki taka mér í munn heitið á. Þar segir að leggja eigi áherslu á almenna fræðslu og leggja sérstaka rækt við að kenna vinnu og veita alla nærgætni og aðhlynningu sem auðið er.

Í þeirri skýrslu sem hér er lögð fram eru bent á ýmsar leiðir til úrbóta. Ég veit og þekki að þar er allt annar og góður andi, (Forseti hringir.) mikil efni til að vinna úr þessari skýrslu og liðsinna því fólki sem býr við rangindi. Ég biðst afsökunar, virðulegur forseti, á að hafa talað of lengi.