146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

matvælaframleiðsla og loftslagsmál.

[14:57]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka málshefjanda hér og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ísland er matvælaframleiðsluland og þess vegna er eðlilegt að við ræðum þetta stóra mál, loftslagsmál, út frá því að við erum matvælaframleiðsluland, fyrst og fremst á sviði fiskveiða og framleiðsluvara og matvara úr fiski. Til viðbótar þeirri ágætu umræðu sem var um loftslagsmál fyrr í dag get ég tekið undir það sem þar kom fram um að sjávarútvegur hafi unnið gott verk á sviði loftslagsmála og er að ná þar miklum árangri.

Hæstv. umhverfisráðherra veit líka að við afgreiðslu búvörusamninga á þinginu í sumar og haust var það ein af átta vörðum sem atvinnuveganefnd skrifaði inn í nefndarálit sitt að við endurskoðun búvörusamninga fyrir árið 2019 ætti að taka sérstakt tillit til loftslagsmála. Sú varða var ein af þungamiðjunum í því endurskoðunarferli sem þingið setti búvörusamningana í fyrir árið 2019. Það var ekki að tilefnislausu vegna þess að það voru mér og fleirum mikil vonbrigði að sjá nýgerða búvörusamninga þar sem lítið var fjallað um umhverfismál og lítið var fjallað um loftslagsmál þeim tengdum. Ég held nefnilega að landbúnaðurinn gegni miklu stærra hlutverki í loftslagsmálum og umhverfismálum hér á Íslandi, rétt eins og annars staðar, en okkur er almennt tamt að tala um.

Við höfum mikinn tíma glataðra tækifæra. Við eigum of lítið af rannsóknum og greiningum við innlendar aðstæður til að styðjast við, til að takast á við þetta stóra mál í matvælaframleiðslunni hér heima. Það eru t.d. vísbendingar um það, án þess að ég hafi séð neina staðfestu um það, að fóðrun með grasi þýði minni losun gróðurhúsalofttegunda. Við styðjumst mjög mikið við alþjóðlegar tölur og gildi um kolefnislosun eða losun gróðurhúsalofttegunda sem við setjum síðan í innlendar rannsóknir. Í ágætri skýrslu sem finna má á vef umhverfisráðuneytisins kemur m.a. fram að eitt gildi af losun á tiltekinni landgerð borið saman við þá staðla sem við erum að nota erlendis frá og (Forseti hringir.) samanborið við íslenskar niðurstöður þýðir um 87% minni losun en staðlarnir gáfu til kynna. Ég segi því, virðulegur forseti, við eigum mikið órætt og órannsakað (Forseti hringir.) í þessum málum.