146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

matvælaframleiðsla og loftslagsmál.

[15:02]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég vil líkt og aðrir þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir að taka þetta mikilvæga mál fyrir og koma því á dagskrá hér í dag.

Matvælaframleiðsla er okkur Íslendingum líkt og öðrum þjóðum mikilvæg. Hún er óumdeilanlega ein af undirstöðum íslensks atvinnulífs. Hraður vöxtur ferðaþjónustunnar og starfa hennar sem önnur af þessum undirstöðum okkar eykur síðan á mikilvægi matvælaframleiðslunnar. Hér eru að jafnaði á degi hverjum um 45.000 ferðamenn. Þessir ferðamenn borða mat. Ég held að það sé hægt að fullyrða að margir þeirra, jafnvel flestir, séu hallir undir íslenska framleiðslu sé hún á annað borð í boði. Síðan tengist íslenskur matur ímynd Íslands sem hreint náttúruvænt land. Við vitum fullvel að það sem umfram annað dregur erlenda ferðamenn hingað til landsins er lítt menguð náttúra okkar og reyndar auðvitað norðurljósin sem ég vona að sem flestir af hv. þingmönnum hafi haft kost á að njóta í gærkvöldi og ef ekki þá er búist við annarri sýningu í kvöld. Hún var mögnuð.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er tilgreint að áfram skuli lögð áhersla á framleiðslu heilnæmra innlendra landbúnaðarafurða. Jafnframt segir þar, með leyfi forseta:

„Hreinn landbúnaður, þegar litið er til afurða og umhverfis, og minni kolefnislosun verður ásamt framangreindum þáttum leiðarljósið í landbúnaðarstefnu stjórnvalda.“

Virðulegi forseti. Einn af þeim þáttum sem þyngst vega í matvælaöryggi Íslendinga er nefnilega sú sérstaða sem við búum við varðandi hreinleika náttúrunnar og veðurfarið sem m.a. birtist í lítilli þörf fyrir notkun skordýraeiturs og lyfja í landbúnaði. Við eigum að gera okkur mat úr þessari sérstöðu og þessum styrkleika, m.a. með því að innleiða vottunarferli og tilheyrandi eftirlit sem vonandi staðfestir og viðheldur (Forseti hringir.) gæðum og heilnæmni íslenskra afurða. Með þessu fara saman hagsmunir bænda, hagsmunir neytenda og hagsmunir umhverfisins.