146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

matvælaframleiðsla og loftslagsmál.

[15:09]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil hefja þetta samtal við hæstv. umhverfisráðherra með því að óska henni til hamingju með daginn. Þá vil ég þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir að hefja þetta mál.

En þá að máli málanna. Það er hverri þjóð mikilvægt að tryggja fæðu- og matvælaöryggi sitt eftir bestu getu, ekki síst í tilfelli eyju eins og Íslands, langt norður í hafi. Heildstæð stefna þarf því að vera til. Við gerð hennar þurfum við samt fyrst og síðast að setja upp sjálfbærnigleraugun og horfa á heildarmyndina, til að mynda á hvað við framleiðum í dag, hvernig framleiðsluferlið er, hver eftirspurnin er eftir einstaka afurðum og hvaða önnur framleiðsla gæti komið til greina til að auka úrval af matvælum framleiddum hérlendis.

Þegar sú heildarsýn liggur fyrir þarf að tengja hana við fjármagnið sem ríkið setur í matvælaframleiðslu, þá kannski sérstaklega landbúnaðarframleiðsluna, og láta þannig stefnu um fæðu- og matvælaöryggi og opinbert fjármagn sem veitt er í stefnuna vinna saman.

Ég er sammála hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um að búvörusamningar gætu þannig verið hluti af heildarstefnu málaflokkanna. Eigi slíkir samningar að stuðla að auknu fæðuöryggi ættu þeir að ýta mun meira undir framleiðslu sem byggir á sjálfbærni með tilliti til orku og áburðarefna og stuðla að loftslagsvænni nýsköpun innan landbúnaðargeirans en þeir gera í dag.