146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

matvælaframleiðsla og loftslagsmál.

[15:13]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á þakka málshefjanda hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur kærlega fyrir þessa umræðu sem er mikilvæg. Ég ætla að halda mig aðeins við matvælaöryggi, eins og síðasti þingmaður og fleiri hafa rætt um.

Á fundi atvinnuveganefndar í morgun komu sérfræðingarnir Karl G. Kristjánsson, yfirlæknir í sýkladeild Landspítalans, og Vilhjálmur Svansson, dýralæknir á Keldum. Þeir ræddu við okkur um þær hættur sem steðja að ef óheftur innflutningur verður á matvælum. Þar kom fram að sterkasta staða Íslands er heilbrigði íslenskrar matvælaframleiðslu hjá íslenskum bændum þar sem hreinleikinn er nánast algjör. Til samanburðar var nefnt að stundum væru svín í Danmörku með 88% MÓSA-smit sem gengur yfir í menn og hefur alvarlegar afleiðingar. Það kom einnig fram að vaxandi innflutningur matvæla væri ógn við lýðheilsu Íslendinga.

Eins og fram kom áðan dettur engum í hug að banna innflutning á matvælum til Íslands, en við þurfum að gæta vel að okkur, við þurfum að tryggja eigið matvælaöryggi. Það gerum við best með því að framleiða sem mest sjálf og með því að við styrkjum íslenska bændur og matvælaframleiðslu til að búa til og framleiða matvöru hreinleikans, sem er lykilatriði fyrir Íslendinga, það er fiskurinn okkar, það er lambakjötið okkar. Við skulum stuðla að því saman.