146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[15:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja að þó að málefni sem hv. þingmaður vekur athygli á sé vissulega alvarlegt og skipti miklu máli, bæði fyrir þjóðfélagið allt og þá einstaklinga sem í hlut eiga, eru þetta í sjálfu sér óskyld mál. Annars vegar er um að ræða vanda sem þó nokkrir eiga enn í, og ég tek undir með hv. þingmanni að það er vissulega ástæða til þess að gleyma ekki. Ég hygg að taka eigi á þeim vanda, og það hefur auðvitað verið reynt að einhverju leyti í margvíslegum aðgerðum undangenginna ára, en ég tel að það eigi að gera það óháð þessu frumvarpi þar sem verið er að bregðast við athugasemdum við því að Ísland standist í raun og veru ekki samninginn um Evrópska efnahagssvæðið nema með því að gera þessar breytingar.

Ég vek sérstaka athygli á því að breytingarnar sem við erum að gera eru kannski ekki svo viðamiklar vegna þess að nú þegar eru leyfð lán í erlendri mynt. Þarna er eingöngu verið að tala um að veita megi lánin í íslenskum krónum en tengja endurgreiðsluferilinn erlendri mynt. Það er því ekki um að ræða byltingu í lánveitingum frá því sem hefur verið. Hin lánin hafa verið leyfileg í þó nokkurn tíma. Þarna er eingöngu verið að breyta lögum frá árinu 2001, sem við þekkjum, a.m.k. flest hér, hvaða sögu hafa.