146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[15:39]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir svarið. Það er kannski rétt sem hann segir að þetta séu óskyld mál, en hér er samt sem áður um að ræða gengistryggð lán og við erum að opna enn frekar á það. Hjá þeim einstaklingum sem leitað hafa réttar síns ríkir gremja gagnvart því að kerfið sé tilbúið að opna á það að nýju án þess að kerfið sé tilbúið til þess að auka það svigrúm sem þessir einstaklingar hafa til þess að leita réttar síns gagnvart fjármálastofnunum.

Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra segir að hér er um að ræða mjög alvarlegt mál. Það er mjög alvarlegt að fólk fái ekki úrlausn sinna mála vegna þeirra hrakfara sem þeir lentu í í kerfinu fyrir fjöldamörgum árum. Það hefur haft gríðarlega erfiðar afleiðingar fyrir einstaklinga og fjölskyldur hér í landinu. En nóg um það.

Næst langar mig að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvernig honum lítist á að bæta enn frekar við 13. gr. laganna, þó að það sé óskylt málinu þannig séð, þ.e. við lög nr. 38/2001, og bæta setningu við núverandi ákvæði laganna sem mundi hljóma á þann veg að verðtrygging á neytendalán og fasteignalán til neytenda væri bönnuð. Væri ekki tilvalið að gera það núna þar sem lögin eru opin og í efnislegri vinnslu, eða verða það líklega innan nokkurra daga á hv. Alþingi? Hvernig líst ráðherra á það ef þetta ákvæði yrði sett inn í lögin í breytingartillögu? Er hann tilbúinn til að samþykkja slíka breytingartillögu við frumvarpið?