146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[15:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Það er svolítið þverstæðukennt að hugsa þetta þannig, en eins og bent var á af hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur sitja margir eftir með sárt ennið frá því að hafa tekið óhóflega áhættu á árunum fyrir hrun, enn þann dag í dag er ekki búið að vinna úr öllum þeim málum sem þá komu, að hafa á sama tíma miklar áhyggjur af því að menn geti orðið ríkari af þessum lánum.

Ég ætla hins vegar að segja að það sem ég tel að sé meginmeinsemdin í þessu kerfi er hinn mikli vaxtamunur á íslenskum lánum og erlendum. Ég hef talað um að við það vandamál eigum við að reyna að glíma með öllum mögulegum ráðum. Við eigum að reyna að ná vöxtum niður með því að skapa hér skilyrði stöðugleika með því að bæta lánshæfi ríkissjóðs, með því að reyna að bæta lánshæfi bankanna, með því að vera með aðhald í ríkisrekstri á þenslutímum. Það tel ég vera miklu verðugra verkefni.

Hér erum við að tala um neytendalán, við erum ekki að tala um lán þar sem menn eru að taka einhverjar stórar stöður gagnvart krónunni, heldur erum við að tala um lán sem menn taka t.d. til að kaupa bíla eða sjónvörp eða eitthvað því um líkt, þannig að ég held að það sé afar lítil hætta á því að menn muni auðgast óhóflega á kostnað annarra vegna slíkra lána.